Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Þingflokknum hefur liðið illa“

24.09.2016 - 12:29
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að þingflokki og grasrót Framsóknarflokksins hafi liði illa frá því í apríl, þegar Wintrismálið kom upp. Hún vill að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra leiði Framsóknarflokkinn í komandi Alþingiskosningum. Hún segir þingflokksfund Framsóknarflokksins sem haldinn var í gær hafa verið mjög erfiðan.

Silja Dögg segir að atburðir síðustu mánaða hafi lítið verið ræddir þangað til á fundinum í gær.  „Fólki lá mikið á hjarta, það er mikið búið að ganga á og fólk er kannski ekki búið að ræða þetta síðustu mánuði. Fólk hefur verið að bíða og sjá og vona hvort að hlutirnir leysist ekki af sjálfu sér. Þingflokknum fannst tími til kominn að setjast niður saman og vera hreinskilin og ræða málin eins og þau líta við fólki,“ sagði Silja Dögg í viðtali við Ægi Þór Eysteinsson í hádegisfréttum. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan.

Hvað áttu við með að hlutirnir myndu leysast af sjálfu sér?

„Að andrúmsloftið í flokknum myndi batna sjálfkrafa. Við náttúrulega urðum fyrir miklu áfalli í apríl. Það þarf ekkert að orðlengja það. Við vitum öll hvað gerðist þá. Síðan þá hefur bara fólki í flokknum liðið illa. Grasrótinni hefur liðið illa og okkur í þingflokknum hefur liðið illa,“ segir Silja Dögg.

Hún segist hafa vonað að öldurnar myndu lægja eða það myndi eitthvað breyta stöðunni. „Staðan er erfið og þess vegna þurftum við að hittast og ræða málin og vera hreinskilin og það gerðum við í gær.“

Silja Dögg segir erfitt að meta stöðu Sigmundar Davíðs. „Við höldum flokksþing eftir viku og þá sjáum við hvort hann haldi áfram sem formaður eða ekki.“ Sjálf segist hún styðja Sigurð Inga sem formann flokksins en hann tilkynnti í gær að hann gæfi kost á sér til formanns flokksins.

„Ég styð Sigurð Inga Jóhannsson og ég vona að hann nái árangri á flokksþinginu.“

Silja Dögg segir að þingflokkurinn hafi ekki farið fram á það á fundinum í gær að Sigmundur Davíð myndi stíga til hliðar.

Hún segir málefnastöðu flokksins mjög góða. „Okkur hefur gengið virkilega vel og ég vona að það skili sér í kosningabaráttunni og niðurstöðu kosninganna.“