Thiem í undanúrslit á kostnað Nadal

epa08175504 Rafael Nadal of Spain and Dominic Thiem of Austria meet at the net after their men's singles quarterfinal match at the Australian Open Grand Slam tennis tournament in Melbourne, Australia, 29 January 2020. EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Thiem í undanúrslit á kostnað Nadal

29.01.2020 - 13:24
Austurríski tenniskappinn Dominic Thiem sló í dag Spánverjann Rafael Nadal úr leik í átta manna úrslitum Opna ástralska meistaramótsins í tennis. Mótið er fyrsta risamótið af fjórum ár hvert.

Viðureign Thiems og Nadals var afar spennandi. Thiem vann fyrsta settið eftir upphækkun, 7-6, og annað settið sömuleiðis. Nadal náði hins vegar að vinna þriðja settið 6-4 en Thiem tryggði sér sigurinn með því að vinna fjórða settið, líka eftir upphækkun, 7-6.

Nadal, sem var efstur á heimslistanum fyrir mótið, er því úr leik en Thiem kominn í undanúrslit og mætir þar Þjóðverjanum Alexander Zverev. Thiem hefur tvívegis komist í úrslit á risamótum. Í bæði skiptin tapaði hann fyrir Nadal í úrslitum á Opna franska 2018 og 2019.

Undanúrslitaviðureign Thiems og Zverevs verður á föstudag en á morgun mætast stjörnurnar Novak Djokovic og Roger Federer. Það er því orðið ljóst að aðeins ein af risastjörnunum þremur, Nadal, Federer og Djokovic, muni leika til úrslita í einliðaleik á Opna ástralska meistaramótinu í ár. Þar á Djokovic titil að verja. Hann er raunar sá sem oftast hefur unnið mótið eða sjö sinnum.