„Þið skuldið þessum leikurum 5.000 krónur á haus“

Mynd: Poppkorn / skjáskot

„Þið skuldið þessum leikurum 5.000 krónur á haus“

27.03.2020 - 17:30

Höfundar

Myndbandið við lagið Lífið með hljómsveitinni Írafár er viðfangsefni þáttarins Poppkorn í kvöld. Birgitta Haukdal segir frá tilurð myndbandsins og tónlistarmaðurinn Jón Ragnar Jónsson, sem lék aðalhlutverkið, ljóstrar því upp í léttum dúr að aukaleikarar í myndbandinu hafi aldrei fengið greitt fyrir vinnu sína, þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Jón Ragnar segist hafa platað félaga sína með sér í myndbandið en hann var á þessum tíma nokkuð þekktur eftir að hafa farið með aðalhlutverk í söngleikjunum í Verzló. „[Ég söng] aðallögin og þau rötuðu á Popptíví og í útvarpið og svona. Það var rosa stórt á þessum tíma áður en Youtubið tók við,“ segir Jón í Poppkorni, laufléttur að vanda.

Horfðu á brot úr Poppkorni kvöldsins hér fyrir ofan.

Á meðal þeirra sem komu fram í myndbandinu ásamt Jóni voru Björg Magnúsdóttir, sem flestir kannast við af skjánum, og Kristján Sturla Bjarnason, sem hefur verið hægri hönd Jóns í tónlistarbransanum í gegnum tíðina. 

„Þau áttu að fá 5.000 kall fyrir að leika en fengu hann aldrei greiddan,“ segir Jón og snýr sér beint í myndavélina, í þeim tilgangi að ávarpa framleiðendur myndbandsins. 

„Þið sem að berið ábyrgð á þessu myndbandi, þið skuldið þessum leikurum fimmþúsund krónur á haus. Takk fyrir. Á genginu 2005.“

Uppljóstrun Jóns er á léttu nótunum en það skal þó tekið fram að ef miðað er við miðbik árs 2005 þá er núvirði launanna sem aldrei bárust 9.848 krónur, samkvæmt reiknivél á vef Hagstofu Íslands.