Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þéttar og góðar loðnutorfur suður af Papey

24.02.2020 - 12:30
Mynd með færslu
Áhöfnin á Jónu Eðvalds með gott kast á síðunni í morgun Mynd: Stefán Stefánsson
Börkur NK, skip Síldarvinnslunnar, sigldi fram á loðnutorfur suður af Papey, úti fyrir mynni Hamarsfjarðar, í gær. Hafrannsóknarstofnun sendi í kjölfarið tvö skip til viðbótar, Hákon EA og Polar Amaroq, til að aðstoða við að mæla torfurnar.

„Þeir náðu að mæla loðnu á mjög afmörkuðu svæði suður af Papey og við erum hérna á Hafró með gögnin í höndunum og erum að skoða. Þetta eru þéttar og góðar torfur en við getum enn ekkert sagt um magnið,“ segir Birkir Bárðarson fiskifræðingur og leiðangursstjóri Hafrannsóknastofnunnar. Magnið þurfi að vera talsvert til þess að það skipti máli.

Kanna uppruna loðnunnar og magn

Birkir segir erfitt að segja til um hvort þetta séu torfur sem hafa verið mældar áður. Hafrannsóknastofnun reynir nú að leggja mat á það. Fyrir helgi sendi Hafrannsóknastofnun frá sér tilkynningu og taldi hrygningarloðnu vel undir síðustu mælingu. Stofnunin taldi hverfandi líkur á að niðurstaðan breyttist verulega. „Í fyrsta lagi er gleðiefni þó að vita af því að loðnan sé að ganga þarna upp í svo þéttum og góðum torfum,“ segir Birkir jafnframt.

„Fyrsta vers er eiginlega bara að sjá hvort að magnið sé þess eðlis að það skipti máli fyrir heildarmyndina. Síðan förum við að rýna í það hver geti verið uppruninn á þessari loðnu og hvar hún eigi heima í heildarstofnmatinu.“

Hvert þarf magnið að vera til þess að það skipti máli? „Það þarf að vera talsvert. Við vorum langt frá því í okkar síðustu mælingu að vera nálægt ráðgjöf. Það er ekki ein föst tala það veltur á eðli gagnanna en það er talsvert magn sem þarf,“ segir Birkir.