Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta voru hrikalegar aðstæður“

12.01.2020 - 19:43
Mynd: RÚV/Eggert Þór Jónsson / RÚV/Eggert Þór Jónsson
Maður skilur alltaf hluta af sér eftir í svona aðstæðum, segir íslenskur björgunarsveitamaður, sem tók þátt í björgunarstarfi eftir jarðskjálfta á Haítí fyrir áratug. Tíu ár eru í dag frá einum mannskæðasta jarðskjálfta sögunnar.

Rose Berline er tólf ára. Hún var tveggja ára þegar jarðskjálftinn reið yfir. Hún var grafin úr rústum heimilis síns en taka þurfti af vinstri fæti hennar vegna meiðsla. Hún fluttist til Canaan, ásamt um 300 þúsund öðrum, í nýlendu sem stjórnvöld komu upp fyrir þau sem misstu heimili sín í skjálftanum. Áratug síðar búa þau enn þar, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

„Við erum enn á neyðarstigi, við erum ekki enn byrjuð á uppbyggingunni. Það hafa komið umtalsverðir fjármunir inn í landið, en þeim hefur ekki verið varið í rétta hluti,“ segir Leslie Voltaire, borgarskipuleggjandi.

epa02000803 A dead body remains under debris as a man searches merchandise at a destroyed store in the comercial zone of center of Port-Au-Prince, Haiti, 22 January 2010.  EPA/ORLANDO BARRIA
 Mynd: EPA

Það var síðdegis þann 12. janúar 2010 sem jarðskjálfti af stærðinni 7 reið yfir í nágrenni höfuðborgar Haítí, Port-au-Prince. Íslenska rústabjörgunarsveitin var ein af þeim allra fyrstu sem komu á vettvang, um sólarhring eftir að skjálftinn reið yfir. 

„Það var auðvitað mjög erfitt að ná sambandi við stjórnvöld á Haítí, það fór allt saman á hliðina, bókstaflega,“ segir Guðjón S. Guðjónsson, björgunarsveitamaður, sem er einn þeirra sem fór með hópnum. 

Svava Ólafsdóttir var sömuleiðis í hópnum. 

„Fyrsta kvöldið þegar við keyrðum inn í borgina, þá voru öll líkin sem verið var að safna saman. Það var svolítið svona eitthvað sem maður gleymir ekki,“ segir Svava. 

Björguðu konum á lífi úr rústunum

„Rústabjörgunarhóparnir voru úti á vettvangi alla dagana sem við vorum þarna, við vorum í viku. Frá morgni til kvölds og stundum svolítið lengur. Bara að leita í rústum að lífi,“ segir Svava.

Leit sem bar stundum blessunarlega árangur. Það vakti til að mynda heimsathygli þegar íslenska sveitin gróf lifandi konur upp úr rústunum, fyrst tvær sem sögðust hafa heyrt í þeirri þriðju í rústunum. 

„Við vorum að kallast á við hana, það voru alltaf einn til tveir inni í rústinni að tala við hana, meðan hinir voru að leita leiða til að komast að henni. Hún var búin að vera þarna í hartnær 40 tíma þegar henni var bjargað,“ segir Guðjón.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Eggert Þór Jónsson
Guðjón S. Guðjónsson, björgunarsveitarmaður.

Hvernig tilfinning er það í allri þessari eyðileggingu og dauða að bjarga þremur á lífi eftir um 40 tíma í rústunum?

„Þetta er bara ólýsanlegt. Okkur fannst við hafa sigrað heiminn,“ segir Guðjón.

Rotnunarlyktin lá yfir borginni

Skjálftinn er meðal mannskæðustu náttúruhamfara sögunnar. Þótt tölur séu enn á reiki um hve mörg hafi farist þar er talið að skjálftinn hafi kostað á þriðja hundrað þúsund lífið, og mögulega fleiri. Hundruð þúsunda misstu sömuleiðis heimili sín. 

„Aðstæðurnar voru, maður á eiginlega ekki nógu stór lýsingarorð til að lýsa þeim. Þetta voru hrikalegar aðstæður. Fyrir okkur var þetta auðvitað, frá Íslandi í janúar, það var um og yfir 40 stiga hiti og mikill raki. Og það var svona ryk, svona hálfgert sementsryk í loftinu og svo var rotnunarlykt sem lá yfir borginni,“ segir Svava. 

„Maður skilur alltaf hluta af sér eftir í svona aðstæðum. Ég held að allir hafi verið svolítið beyglaðir eftir þetta, að hafa ekki getað gert meira,“ segor Guðjón. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV