Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta var stuttur og mjög slæmur fundur“

24.03.2020 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Efling sendi í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem tilkynnt var að verkfallsaðgerðum þeirra verði frestað vegna Covid-19 faraldursins. Félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi höfðu þá verið í verkfalli í rúman hálfan mánuð.

Tillögu Eflingar hafnað án umræðu

Efling óskaði í gær eftir fundi hjá Ríkissáttasemjara sem svo boðaði samninganefndirnar á fund í morgun.

„Þessi fundur var stuttur og mjög slæmur,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. 

„Við lögðum fram enn eina tillöguna í þessari kjaradeilu. Þar var útfærsla á því hvernig hægt sé að framkvæma sambærilega kjaraleiðréttingu og samið var um við Reykjavíkurborg og ríkið. Því var hafnað án umræðu,“ segir Viðar.

Stál í stál og óvíst með framhaldið

Inga Rún Bjarnadóttir, formaður samninganefndar SÍS, tekur undir að ekkert þokist í viðræðunum. 

„Þau lögðu fram tilboð og við höfnuðum því. Samningurinn er langt umfram þá samninga sem við höfum gert við önnur stéttarfélög. Efling stendur eftir eitt félaga sem á ósamið við okkur um sömu og sambærileg störf. Staðan er einfaldlega sú að það hefur ekki verið neinn gangur í viðræðunum og það ber mjög mikið milli aðila,“ segir Inga Rún.

Hún segir að í ljósi aðstæðna finnist samninganefndinni eðlilegt að fresta verkfalli. Óvíst sé um framhald viðræðnanna. 

„Ríkissáttasemjari stjórnar því hvenær hann kallar viðsamjendur saman. Hún stjórnar ferðinni í því.“