Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Þetta var á opinberu veitingahúsi“

13.12.2018 - 14:20
Mynd:  / 
Fljótt á litið eru engin dómafordæmi í íslenskri réttarsögu í máli Báru Halldórsdóttur. Þetta segja lögmenn hennar. Ekki sé útilokað að hún verði kærð til saksóknara eða lögreglu. Lögmennirnir segja að þótt almennt sé óheimilt að taka upp samtöl fólks án vitundar þess, séu alltaf undantekningar frá öllum reglum.

Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samtal þingmanna á barnum Klaustri 20. nóvember hefur fengið aðstoð tveggja lögmanna: Auðar Tinnu Aðalbjarnardóttur og Ragnars Aðalsteinssonar, sem bæði starfa hjá lögmannsstofunni Rétti. Bára á að koma fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í næstu viku og fékk hún boð þess efnis frá héraðsdómara í fyrradag. Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, sagði í samtali við RÚV í gær að Bára hefði verið boðuð til þess að hægt verði að gera henni ljóst að hugsanlega verði höfðað mál gegn henni, og að hún gæti þurft að grípa til varna. Auður Tinna segir málið mjög athyglisvert og líklega einstakt.

„Þetta mál er um margt sem hefur lítið reynt á í íslenskum rétti og er mjög spennandi að því leyti,“ segir Auður. „En svo er það þessi fyrirtaka á mánudaginn sem mikið hefur verið fjallað um, það er mjög óvenjulegt að til hennar sé boðað með þessum hætti. Að aðili sé látinn vita eftir á með bréfi að hann sé sennilega hluti af þessu dómsmáli og sé vinsamlegast beðinn um að mæta fyrir dóm.“

Ætlið þið að mæla með því að Bára mæti á mánudaginn?

„Já. Það er pælingin,“ segir Auður.

„Mjög forvitnilegt“

Bára tók upp samtal fólks inni á veitingastað og sendi fjölmiðlum – er ekki ljóst að hún braut með því lög?

„Það er hægt að halda því fram að svo sé,“ segir Ragnar. „En þetta var ekki á einkastað. Þetta var á opinberu veitingahúsi. Það var ekki þannig að Bára Halldórsdóttir hefði komið fyrir upptökutæki nálægt þessu fólki heldur var hún einn af gestum veitingastaðarins og var með síma. Og þegar hún heyrði um hvað þessir merku menn sem þarna voru töluðu, framámenn þjóðarinnar, þá taldi hún ástæðu til að taka þetta upp og velta því fyrir sér hvað þeir voru að tala um. Því það var mjög neikvætt um marga hópa í samfélaginu. Og þetta var líka umtal um hvernig væri farið með hverjir yrðu sendiherrar landsins á hverjum tíma. Það var mjög merkilegt og þar var jafnvel verið að tala um hluti sem eru andstæðir lögum. Þetta var allt mjög forvitnilegt og þess vegna tók hún þetta upp.“

En er ekki óheimilt að taka upp samtöl fólks án vitundar þess?

„Jú almennt séð er það. En svo eru alltaf undantekningar frá öllum reglum. Og þarna er um mjög sérstakar aðstæður að ræða. Þetta eru lýðkjörnir þingmenn sem eru að tala saman og þeir tala með þeim hætti að það er spurning hvort almenningur hafi ekki átt rétt á því að vita hvernig þeir töluðu, og um hvað þeir töluðu. Og jafnvel spurning hvort það hafi verið skylt, þeim sem voru á veitingastaðnum og heyrðu þetta, að upplýsa um það til fjölmiðla og láta þá fjölmiðla um að taka málið áfram, eða láta það niður falla,“ segir Ragnar.

Getur verið að fjölmiðlar hafi brotið einhver lög með því að birta þessi gögn?

„Það er sérstakt álitamál sem þyrfti að taka fyrir. En upplýsingaskylda fjölmiðla er náttúrulega mjög rík um svona mál sem varða almannahagsmuni. Þannig að það yrði sennilega erfitt að sækja slíkt mál,“ segir Auður.

„Þarna koma að sjálfsögðu til álita ákvæði stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi og rétt almennings til vitneskju um það sem máli skiptir í samfélaginu. Það verður að hafa það í huga þegar þessari spurningu er svarað,“ segir Ragnar.

Brot gegn tjáningarfrelsi

Eru einhver dómafordæmi fyrir hendi í svona máli?

„Að íslenskum rétti virðist í fljótu bragði ekki vera neitt sem er mjög líkt þessu, uppljóstrun um svona opinber málefni. En hitt er annað mál að fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu hefur nokkuð verið tekist á um slíkt efni,“ segir Auður.

Hvernig hafa þau mál farið?

„Það er í þónokkrum tilvikum sem talið er að ríkin hafi brotið gegn tjáningarfrelsi uppljóstrara með því að beita þá refsingum,“ segir Ragnar.

Miðflokksmenn virðast ætla í einkamál gegn Báru, en á hún á hættu sakamál?

„Það er ekki útilokað að einhver sendi kæru á hana til saksóknara eða lögregluembættis. Einnig kann að vera að ákæruvaldið vilji taka málið upp að eigin frumkvæði. Það er allt saman mögulegt. Hvort það gerist eða hvenær er ómögulegt að spá um,“ segir Ragnar.

Í yfirlýsingu segja Miðflokksmenn að Bára hafi gerst sek um, eða tekið á sig sök um hlerun, hvernig túlkið þið þetta?

„Ég held að það sé fyrst og fremst ekki þeirra að dæma um þetta. En það er áhugavert að sjá þeirra opinberu afstöðu í þessu máli, fyrir þingmenn sína sem voru hluti af þessu samtali,“ segir Auður.

Var hún að taka á sig sök fyrir einhvern annan?

„Ég ætla ekki heldur að dæma um það,“ segir Auður.