Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þetta skaltu gera ef þig grunar að þú sért með COVID-19

03.03.2020 - 21:12
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Undanfarna daga hafa fleiri greinst hér á landi með COVID-19 veiruna. Mikilvægt er að fara með gát og lykilatriði að vita hvernig á að bera sig að ef grunur leikur á að maður sé smitaður. Þó að veiran sé mjög smitandi ná langflestir fullum bata sem greinast með hana. Yfirvegun og rétt viðbrögð skipta höfuðmáli.

Allar upplýsingar um viðbrögð við mögulegu smiti og varnir til að forðast smit má finna á vef Landlæknis. Mikilvægt er að halda ró sinni og ræða málið við börn, unglinga og sem flesta um sjúkdóminn og áhrif hans á daglegt líf.

Einkenni sjúkdómsins líkjast helst inflúensusýkingu; þau eru hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta og svo framvegis. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á fjórða til áttunda degi veikinda.  Meltingareinkenni, svo sem kviðverkir, ógleði, uppköst, niðurgangur, eru ekki mjög áberandi einkenni COVID-19 en þó þekkt, líkt og við inflúensu.

Nauðsynlegt að sýna fyrirhyggju og sýna ábyrgð

Landspítalinn birti í seinustu viku myndband um einkenni veirusýkingarinnar og leiðbeiningar um viðbrögð.

Ekki er hægt að greina fólk með veiruna fyrr en einkenni koma fram. Því er tilgangslaust að leita á heilsugæslu eða spítala til þess að óska eftir sýnatöku. COVID-19 smitast á milli fólks. Smitleið er talin vera snerti- og dropasmit, svipuð og smitleið inflúensu. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og hraustur einstaklingur andar að sér dropum eða úða frá þeim veika eða hendur hans mengast af dropum og hann ber þær svo upp að andliti sínu.

Ekki hefur verið staðfest að fólk geti verið smitandi áður en einkenni koma fram en sumir fá lítil sem engin einkenni og geta þó verið smitandi.

„Hvenær er maður útsettur?“ spurði Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítala, á blaðamannafundi Almannavarna og Landlæknis. Hann svaraði sjálfur: „Það er ef maður hefur verið í tengslum við staðfest tilfelli, í innan við einn til tvo metra í meira en fimmtán mínútur. Þetta gildir um alla.“

Handþvottur mikilvægur

Handþvottur er mikilvægasta sýkingavörnin sem hægt er að viðhafa því snerting, bein og óbein, er langalgengasta smitleið sýkla milli manna. Með höndunum snertum við allt umhverfi okkar og með þeim komast sýklar inn í slímhúð í munni, nefi, augum og kynfærum og geta valdið sýkingu. Með höndunum geta sýklar komist í matvæli og borist þannig yfir í aðra. Vandaður handþvottur er því afar mikilvægur hvort sem honum er beitt til að vernda sjálfan sig eða umhverfið.

Við rannsóknir og athuganir hefur komið fram að almennt virðist fólk ekki þvo sér nægilega oft né nægilega vel um hendurnar. Nauðsynlegt er að taka af sér skartgripi áður en hendur eru þvegnar því undir skartgripum geta leynst mikil óhreinindi. Við handþvottinn sjálfan verður að muna að þvo öll svæði vel til dæmis á milli fingranna, fingurgóma og neglur. 

Hendurnar þarf ávallt að þvo með vatni og sápu og þurrka vel:

  • áður en hafist er handa við matreiðslu.
  • fyrir og eftir máltíðir.
  • eftir salernisferðir.
  • eftir beina snertingu við sár, blóð og hvers kyns líkamsvessa, manns eigin eða annarra.
  • eftir bleiuskipti á barni.
  • eftir snertingu við dýr.

Vel útfærður handþvottur með fljótandi sápu og vatni fjarlægir 90% af því smitefni sem maður getur haft á höndunum og er það ásættanlegur árangur við allar venjubundnar aðstæður. Við matvælaframleiðslu og við störf á sjúkrahúsum eru hins vegar gerðar meiri kröfur og þá eru gjarnan notuð sótthreinsandi efni til að fjarlægja enn meira af bakteríunum af húð handanna.

Mynd með færslu
Leiðbeiningar landlæknis um handþvott.

Ekki fara inn á bráðamóttöku eða mæta á heilsugæsluna

Fólki, sem hefur dvalið á svæðum þar sem veiran hefur gengið, og veikist með hita, hósta eða öndunarörðugleika innan 14 daga, er ráðlagt að hafa samband við lækni. Á dagvinnutíma, frá kl. 8–16, getur fólk hringt í heilsugæsluna og fengið að tala við hjúkrunarfræðing en utan dagvinnutíma er hægt að hringja í síma Læknavaktarinnar 1700 og fá ráðleggingar hjá hjúkrunarfræðingi. Alvarlega veiku fólki er bent á Neyðarlínuna 112. Fólk á alls ekki að fara á bráðamóttöku, læknavakt eða á heilsugæslu ef það finnur fyrir einkennum þar sem það getur smitað annað fólk.

Þau svæði sem fólk ætti að varast að ferðast til

Eins og er eru fjögur lönd skilgreind sem svæði með mikla smitáhættu í heiminum. Það eru Kína, Suður-Kórea, Íran og Ítalía. Svæði með litla smitáhættu eru Japan, Singapúr, Hong Kong og Tenerife. 

Fólk sem er eða hefur verið á þessum svæðum á síðustu dögum er beðið um að gæta ítrasta hreinlætis og huga að sýkingavörnum; þvo hendur oft og vel, halda klút fyrir vitum sér við hnerra og hósta eða hnerra eða hósta í olnbogabót og nota handspritt. Handþvottur, það að forðast að snerta augu, nef og munn og það að forðast að heilsa með handabandi eru lykilatriði til að forðast smit og fækka smitleiðum.

Tilkynna á veikindi sem koma upp innan 14 daga frá ferðum til áhættusvæða, hvort sem áhættan er metin mikil eða lítil, og fara yfir ferðasögu, í síma 1700 eða með því að hringja á heilsugæsluna.