Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta er skelfilegur dagur“

26.09.2019 - 10:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta er slæmt fyrir alla. Skelfilegt fyrir þá sem lenda í uppsögnunum, slæmt fyrir þá sem eru að missa góða starfsfélaga, og slæmt fyrir samfélagið í heild,“ segir Friðbert Traustason, formaður og framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, um fjöldauppsagnirnar hjá Arion banka. Hundrað manns missa vinnuna. Friðbert segir að samtökin hafi átt minni aðkomu að þessum uppsögnum en fyrri uppsögnum þar sem Arion banki hafi talið sér óheimilt að upplýsa um hvað væri í aðsigi.

Friðbert segir að fólk missi vinnuna með margvíslegum hætti. Samið hafi verið við suma starfsmenn um að þeir færu á eftirlaun, skammtímasamningar sumra séu látnir renna út og öðrum sé sagt upp. Hann segir að 90 prósent þeirra sem missa vinnuna hafi haft starfsaðstöðu á höfuðborgarsvæðinu. 

„Þetta er skelfilegur dagur eins og gefur að skilja. Aðkoma okkar er á allt annan máta en verið hefur hingað til,“ segir Friðbert. „Við höfum alltaf komið að hópuppsögnum með einhverjum hætti og vitað af þeim með góðum fyrirvara. Núna höfum við ekki vitað hvað er í gangi.“ Friðbert segir að alls kyns sögur hafi farið að ganga og fjölmiðlar slegið upp fréttum um fyrirhugaðar uppsagnir en að samtök starfsfólks hafi engar upplýsingar fengið. „Nú þegar þetta skellur á ber bankinn því við að hann hafi ekki getað upplýst fyrr en seinni partinn í gær hvað nákvæmlega er í gangi því fyrirtækið er skráð í Kauphöll. Það er nýr veruleiki. Þá eru lög um hópuppsagnir tilgangslaust plagg fyrir öll félög sem skráð eru í Kauphöllinni.“ Þetta sé eitthvað sem verkalýðsfélögin verði að taka til skoðunar.