Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta er ekki mokstur nema fyrir stóra jarðýtu“

28.03.2020 - 11:45
Mynd: Róbert Ingólfsson / Aðsend
Vegurinn norður í Árneshrepp á Ströndum hefur verið lokaður nær óslitið frá áramótum. Byrjað var að moka í vikunni en hætta varð við hálfnað verk. Bóndi, sem sér um að ryðja, segist ekki hafa séð svona mikinn snjó í aldarfjórðung.

Vegurinn norður í hreppinn fellur undir hina svokölluðu G reglu, sem þýðir að reglubundinn mokstur fellur niður í þrjá mánuði á ári, frá byrjun janúar til 20. mars.

Ingólfur Benediktsson í Árnesi hóf að moka innan úr hreppnum í vikunni. Hann ruddi fannfergi í þrjá daga en neyddist svo frá að hverfa. Vegagerðin á Hólmavík ákvað þá að meta stöðuna.

„Ég hugsa að það hafi ekki verið svona mikill snjór þarna síðan 1995. Gæti bara best trúað því. Þetta er ekki mokstur fyrir nema stóra jarðýtu eða blásara til að fara í gegnum það. Þetta er það mikill snjór.“

Síðast tókst að opna leiðina í hreppinn 4. mars, en Ingólfur segi það hafa verið skammvinn opnun.

„Það tók tvo daga. Rétt náðist að stinga í gegn um kvöldið og það lokaði strax um nóttina. Þannig það voru lítil not af þeim mokstri,“ segir hann.

Árneshreppur er annað tveggja byggðarlaga á landinu sem lokast árlega vegna G reglunnar. Hitt er Mjóifjörður fyrir austan, en þar hefur verið lokað síðan í janúar. Þar er Vegagerðin ekki farin að huga að mokstri og ekki fyrirséð hvenær það verður þar sem enn sé beðið eftir stöðugra veðri.