Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta er ekki heimsendir og þetta ástand mun líða hjá“

16.03.2020 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Páll Óskar Hjálmtýsson er fimmtugur í dag. Hann ætlaði upphaflega að halda þrenna tónleika til að halda upp á afmælið en varð að fresta þeim vegna COVID-19 faraldursins. Hann segir mánuðinn fram undan verða erfiðan, en minnir á að þetta sé tímabundið ástand.

Páll Óskar segir símalínurnar ekki glóa hjá listamönnum þessa dagana. „Ekki beint. Þetta verður kannski svolítið erfiður mánuður núna. Þetta er spurning um að lifa þennan eina og hálfa mánuð af. En eins og í mínu tilfelli þá var engu aflýst, heldur bara frestað svo það verður allt brjálað að gera í september og október.“

„Við verðum svo glöð þegar við fáum loksins að fara út til að djamma aðeins og gleðjast og skemmta okkur,“ segir Páll Óskar enn fremur. „Ég held að við séum bara að spenna beltin fyrir það sem á eftir að koma. Við þurfum bara að taka þetta í hægum skrefum þangað til, eins og öll þjóðin og hlusta á þetta fólk sem er að leiðbeina okkur. Við erum að fá upplýsingar frá ábyrgu fólki sem veit um hvað það er að tala.“

Spurður hvernig hann ætlar að fagna deginum segist hann ætla að vera í faðmi fjölskyldu og vina. „Ég ætla bara að hafa það náðugt með fjölskyldunni; Í faðmi fjölskyldu og vina. Það er alveg nóg. Það er allt í lagi að fresta svona tónleikum fram í september. Það gekk allt saman mjög vel. Það var minna mál en við áttum von á. Þannig að þetta blessast allt saman. Þetta er ekki heimsendir og þetta ástand mun líða hjá.“