Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Þetta er bara hluti af framtíðinni“

Mynd: ÍNN - skjáskot / ÍNN - skjáskot

„Þetta er bara hluti af framtíðinni“

25.09.2019 - 14:42

Höfundar

Ingvi Hrafn Jónsson sem hefur marga fjöruna sopið á íslenskum fjölmiðlamarkaði hyggst stofna streymisveituna Ísflix í nóvember. Þar verður meðal annars að finna umræðuþáttinn Hrafnaþing sem Ingvi Hrafn stýrði á sjónvarpsstöðinni ÍNN um árabil.

„Heyrðu, 40 ára sjónvarpsafmælið mitt er í ár. 1. apríl 1979, þá birtist ég fyrst á skjánum hjá þjóðinni sem hefur ekki verið söm síðan,“ segir Ingvi Hrafn léttur í bragði í símtali við Síðdegisútvarpið. „En þetta er ekki bara Ísflix Ingva Hrafns, ég er skrautfjöður hjá ungum mönnum og fútúristum. Framkvæmdastjórinn og tæknistjóri er Bolvíkingurinn hugumstóri Jónatan Einarsson. Hann á framtíðina fyrir sér. Ég á minni framtíð en miklu meiri fortíð. Þeir Jón Kristinn Snæhólm og Jónatan eru með mig sem gamla kallinn, svona eins og Andy Rooney. Ég held hann hafi verið 87 ára þegar hann allt að því dó í beinni útsendingu í 60 mínútum.“

Hugmyndin að veitunni spratt upp úr dyggum aðdáendahópi sem hefur haldið tryggð við Hrafnaþing síðan þátturinn var á ÍNN. „Þegar ÍNN var sett í þrot af DV-eigendum fyrir tveimur árum, þá hvar sem við fórum var fólk alltaf að biðja okkur um að koma aftur,“ segir Ingvi Hrafn. Þeir enduðu því með að byrja með Hrafnaþing aftur í sjónvarpi Morgunblaðsins í byrjun árs. „En í kúnnahópi okkar er dálítið af eldra fólki, 50 og upp í 100 árin, og ekki allir með spjaldtölvur eða snjallsíma, og vilja fá að horfa á þetta í sjónvarpinu.“ Þá hafi Jónatan stungið upp á sérstöku appi sem nú er verið að leggja lokahönd á og streymisveituna Ísflix, eins og Netflix.

Ísflix ætlar sér að bjóða upp á fjölbreytta, borgaralega dagskrárgerð. Fyrir utan Hrafnaþing verða í boði matreiðsluþættir, hlaðvörp og heimildarþættir eftir stjórnmálafræðiprófessorinn Hannes Hólmstein Gissurarson. En þeir ætla líka að hýsa dagskrárgerð víða að úr samfélaginu, og Ingvi Hrafn leggur áherslu á það allir sem eigi síma geti framleitt efni fyrir Ísflix. „Allir sem eiga snjallsíma eru í raun og veru gangandi kvikmyndaver. Við tökum upp Hrafnaþing meðal annars á tvo snjallsíma, fyrir utan eina myndavél.“ Hann tekur dæmi af Jóni Halldórssyni á Ströndum sem framleiði mikið af gæðaefni á hverjum degi vopnaður engu nema snjallsíma. „Hann tekur alltaf myndir akkúrat þegar það er logn á Hólmavík. Og refir og ernir og rjúpur og bílar, og Hvalá og allur þessi pakki. Hann gæti framleitt einn hálftíma sjónvarpsþátt fyrir hádegi.“

Ingvi Hrafn fullyrði að hann sé fútúristi og að línulegt sjónvarp muni hverfa á næstu 10-20 árum – ef ekki fyrr. „Fólk bara nýtur þess sem það vill njóta þegar það vill njóta þess.“ Hann viðurkennir fúslega að það sé hægri slagsíða á veitunni en þeir útiloki þó enga frá dagskrárgerð vegna pólitískra skoðana, „þó við við séum sjálfir íhaldsmenn og XD-istar. Ég er ekki viss um að einhverjir öfgahópar myndu fá inni hjá okkur, en það er ekkert pólitískt litróf sem er útilokað.“ Áætlunin er svo að appið og streymisveitan verði tilbúin 1. nóvember. „En hvort það verður 1. eða 10. skiptir ekki máli. Þetta er bara hluti af framtíðinni,“ segir Ingvi Hrafn af skriðþunga fútúristans.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Breaking Bad á hvíta tjaldið

Innlent

Flestir landsmenn með áskrift að Netflix

Menningarefni

Netflix dregur úr reykingum í þáttum sínum

Sjónvarp

Nýr þáttur af Krúnuleikum birtur of snemma