„Þetta er bara gæsahúð, ég er kominn heim“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Þetta er bara gæsahúð, ég er kominn heim“

29.06.2019 - 11:23

Höfundar

Síðustu misseri hafa dansleikir með hljómsveitinni Babies notið mikilla vinsælda, þar leikur sveitin slagara sem allir þekkja og þykja viðburðirnir minna á gömlu sveitaböllin forðum. Nú hafa Babies og Herbert Guðmundsson leitt saman hesta sína og Herberti finnst hann vera kominn aftur heim.

Dansiböll með hljómsveitinni Babies eru fyrir marga orðin sígild hefð en sveitin hefur spilað nær reglulega á skemmtistaðnum Húrra um hríð. Nú hefur þeim stað verið lokað en sveitin hefur fundið sér annan samastað á Hard Rock við Lækjargötu og getur þá haldið sínu striki í að svala dansþorsta landsmanna. Þar munu þeir leika fyrir dansi laugardagskvöldið 29. júní og öllu verður tjaldað til í þetta sinn. Sérstakur heiðursgestur verður enginn annar en Herbert Guðmundsson, sem tekur nokkur af sínum þekktustu lögum með drengjunum.

Mynd: RÚV / RÚV
Herbert og Babies - Can't Walk Away

„Við tökum svo mikið eitís að Hebbi passaði inn í okkar prógramm eins og flís við rass,“ segir Ingimundur hljómborðsleikari Babies, í þann mund sem þeir renna í einn helsta slagara þessa tíma, Can't Walk Away af plötu Herberts, Dawn of the Human Revolution. Meðlimir Babies hafa legið yfir þeirri plötu, sem þeir telja algjöra meistarasmíð og verða eflaust fleiri slagarar af þeirri plötu leiknir á Hard Rock. Sveitin er þakklát þeim mörgu áhangendum sem leggja iðulega leið sína á dansiböll Babies og telur áheyrendur bæði kröfuharða og smekkvísa. „Krakkar kunnu ekkert að dansa, voru bara með símann sinn og bjórinn og voru ekkert að dansa við hvert annað. Fólk var bara að spjalla „Hey, sástu leikinn?“ og svoleiðis. Þess vegna verður maður bara að spila betur. Standardinn er hærri og þá verður maður bara að spila betur,“ segir Elvar Bragi, einn liðsmanna Babies.

Mynd: RÚV / RÚV
Herbert og Babies - Svaraðu

„Þetta er eiginlega þeim að kenna. Þeir höfðu samband við mig og vildu renna í nokkur lög með mér,“ segir Herbert Guðmundsson en hann segir að þetta sé runnið undan rifjum trommarans Magnúsar Arnar sem hefur gert talsvert að því að leika undir með Herberti á plötum og uppákomum upp á síðkastið. „Þessi hugmynd kom bara upp og stundum eru hugmyndir það góðar að það er ekki hægt að sleppa þeim,“ segja meðlimir Babies. „Þetta er bara gæsahúð, ég er kominn heim. Ég er rosa þakklátur strákunum fyrir að hafa haft samband við mig og bjóða mér að vera með,“ segir Herbert um þetta tækifæri að leika loks aftur með hljómsveit en Herbert hefur notast við undirleik af bandi síðustu misseri. Herbert naut á sínum tíma undirleiks Utangarðsmanna og trommara Purrks Pillnikk á árum áður og er öllu vanur.

Mynd: RÚV / RÚV
Herbert og Babies - Starbright

Herbert og Babies tóku lögin Can't Walk Away af hljómplötunni Dawn of the Human Revolution, Svaraðu (lag eftir Pedro Ayres Magalhães og texti eftir Friðrik Sturluson) af plötunni Ný spor á íslenskri tungu frá árinu 2001 og lagið Starbright (eftir Herbert og Svan Herbertsson) af samnefndri plötu frá 2018. Í hljómsveitinni Babies leikur Magnús Örn Magnússon á trommur, Ísak Örn Guðmundsson spilar á gítar og syngur, Ingimundur Guðmundsson á hljómborð og syngur, Elvar Bragi Kristjónsson spilar á gítar og syngur og Snorri Örn Arnarson sér um bassaleik. Upplýsingar um dansleik Babies og Herberts má finna hér.

Hljóðstjórn var í höndum Marteins Marteinssonar, myndstjórn sá Gísli Berg um og Óli Palli sá um veislustjórn.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Ætla að muna að minnast ekki á Wham!

Tónlist

„Verður húllumhæ og læti en engir flugeldar“

Tónlist

„Svo reynum við að gera þetta almennilega“

Tónlist

Koma með graðhestarokkið aftur