Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Þetta er bara eitthvað flopp“

27.10.2016 - 19:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, gefa lítið fyrir útspil stjórnarandstöðuflokkanna á þingi sem tilkynntu í dag að þeir vilji kanna möguleika á því að mynda meirihlutastjórn að loknum kosningum, fái þeir umboð til þess. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir útspilið vera flopp.

Formaður Framsóknarflokksins segir niðurstöðu stjórnarmyndunarviðræðanna vera rýra og ekki eins og lagt var upp með í byrjun. Þá segir hann Pírata, sem boðuðu til viðræðna stjórnarandstöðunnar fyrir komandi kosningar, vera byrjaða að ganga á bak orða sinna nú þegar.

„Ég saknaði þess og finnst sérstakt ef að Píratar eru nú þegar búnir að svíkja tvö kosningaloforð fyrir kosningar,“ segir Sigurður Ingi í samtali við fréttastofu. „Það er að segja annars vegar að ófrávíkjanlegt væri að kjörtímabilið yrði mjög stutt og hins vegar hafði mér skilst á þeirra fréttatilkynningu að það ætti að skila skýrslu um stefnumál þessarar nýju ríkisstjórnar í dag. Ég hef ekki séð þessa skýrslu.“

Mun seint starfa með Pírötum

Formaður Sjálfstæðisflokksins gefur lítið fyrir kosningabandalög fyrir kosningar, áður en kjósendur hafi fengið að segja sinn hug. Hann segir flokkinn reiðubúinn til samstarfs við aðra flokka að loknum kosningum, hann geti unnið með hverjum sem er. „En ég held að við munum seint fara að starfa með Pírötum þó,“ segir Bjarni í samtali við fréttastofu.     

Hann segir blasa við að stjórnarmyndunarviðræður minnihlutans á þingi hafi litlu skilað. „Þetta er bara eitthvað flopp fyrir mér. Það eru engar fréttir í því að stjórnarandstaðan, sem er búin að boða það í langan tíma að hún hyggist mynda meirihluta ef hún fái til þess þingstyrk, það þurfti enga kaffihúsafundi til þess að koma því til fólks,“ segir Bjarni. 

„Það sem að menn sögðust ætla að gera var að greina frá nýjum stjórnarsáttmála og hvaða afslættir yrðu gefnir af kosningaloforðum. Það var sagt að það yrði kynntur stjórnarsáttmáli, svona drög hans, þetta var allt sagt að kæmi fram í nafni gegnsæis og lýðræðis, en það stóð ekki steinn yfir steini þegar uppi var staðið.“