Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta er auðvitað risastórt öryggismál“

12.12.2019 - 12:16
Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir óveðrið og afleiðingar þess vera risastórt öryggismál. Hún segir að tilheyrandi ráðuneyti muni fara sameiginlega yfir málin. Þjóðaröryggisráð kemur saman síðdegis. Það var tilkynnt klukkan 12.

„Tilheyrandi ráðuneyti; Ráðuneyti fjarskipta- og samgöngumála, ráðuneyti orkumála og fjármálaráðuneytið og forsætisráðuneytið munu núna fara sameiginlega yfir þessi mál því þetta er auðvitað risastórt öryggismál,“ segir Katrín.

„Þjóðaröryggisráð hefur kallað eftir öryggismati, meðal annars á sviði fjarskipta og orkuöryggis,“ segir Katrín. „Það mat verður kynnt núna í kringum áramótin enda er það hlutverk þjóðaröryggisráðs að fylgjast með og tryggja að réttar stofnanir séu með réttan viðbúnað. Svo að við munum að sjálfsögðu fara yfir málið á þeim vettvangi.“

„En það sem þarf núna er að setja niður skýra aðgerðaáætlun,“ segir Katrín. Hún hefur rætt við íbúa og sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi í dag og tekið stöðuna á þeim. „Auðvitað er þetta ekkert gamanmál. Það er gríðarlegt álag á kúabændur sem ekki hafa getað mjólkað. Fólk hefur ekki getað hitað sín hús.“

Spurð hvort ríkisstjórnin hafi verið viðbúin þessum afleiðingum segir hún að það sé vitað að svona veður geti haft afleiðingar. „Þetta minnir okkur á hversu háð náttúrunni við erum og hvað hún getur haft mikil áhrif á okkar daglega líf,“ segir Katrín.