Þetta er að gerast um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: þetta er að gerast um helgina

Þetta er að gerast um helgina

17.05.2019 - 13:17
Þá er Eurovision helgin gengin í garð. Við tókum saman það helsta sem fram fer um helgina hvort sem þú ætlar að fagna Eurovision eða sniðganga það.

 

Bríet // Kózy tónleikar
Söngkonan Bríet er með kósý-tónleika föstudagskvöldið 17.Maí á Cafe Flóra. Með Bríeti munu vel valdir aðilar koma fram og spila fallega tóna. Bríet mun einnig fara aðeins yfir árið, allt frá því hún spilaði á Íslenska barnum til dagsins í dag. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00.

Eurovision
Þá er stóra stundin runnin upp. Mun hatrið sigra? Laugardaginn 18.Maí er aðalkeppnin í Eurovision og hefst hún á slaginu 19:00. Ísland er númer 17 í röðinni. Ef þig vantar enn Hatarabúning þá borgar sig að horfa á myndbandið sem fylgir þessari frétt. Nú og ef þig langar að mæta í aðeins frumlegri galla í ár en veist ekki hvaða, þá er þetta persónuleikapróf fyrir þig. 

Zerovision
Laugardagskvöldið 18.Maí verða haldnir sniðgöngutónleikar gegn Eurovision á skemmtistaðnum Húrra. Tónleikarnir verða á sama tíma og Eurovision, þessir tónleikar eru til að sýna samstöðu með Palestínu. Margir flottir listamenn munu koma fram þar á meðal palestínski-jórdanski rapparinn Synaptik sem kemur sérstaklega til landsins fyrir tónleikana. Frítt er inn.

Reykjavik metalfest
Um helgina fer fram sannkölluð rokksveisla á Gauknum. Helstu rokkarar landsins munu koma fram ásamt rjómanum af því sem er í gangi erlendis. Þar munu meðal annars troða upp Napalm death, Auðn og Hamferð. Hátíðin fór af stað fimmtudaginn 16.Maí en stendur fram til laugardagsins 18.Maí.