Þetta er að gerast um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þetta er að gerast um helgina

03.05.2019 - 15:40
Þá er helgin enn eina ferðina að ganga í garð og nóg um að vera. Við tókum saman það helsta sem hægt er að gera sér til skemmtunar á höfuðborgarsvæðinu og minnum á að svo gæti farið að sólin léti sjá sig.

Ný og gömul tónlist
Rapparinn Lukku Láki gaf út sína fyrstu plötu á verkalýðsdaginn 1. maí. Að því tilefni verða haldnir útgáfutónleikar á Prikinu föstudaginn 3. maí en ásamt Lukku Láka munu JóiPé og Króli og Séra Bjössi koma fram. Herlegheitin hefjast klukkan 21:00 og sennilega ekki verra að vera mættur snemma til að tryggja sér gott stæði. 

Rokkararnir í Une Misére verða með eðalþungarokk í boði laugardaginn 4. maí á Hard Rock ásamt Devine Defilement. Hljómsveitin mun spila sína gömlu og góðu tónlist auk nýs efnis sem má finna á væntanlegri plötu sveitarinnar. Nýlega skrifuðu þeir undir samning við rokkútgáfurisann Nuclear Blast og því nokkuð ljóst að nóg verður að frétta hjá sveitinni á næstunni. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Hart barist í íþróttunum
Það verður svo nóg um að vera í heimi íþróttanna þessa helgina en meðal þess sem er á dagskrá er æsispennandi oddaleikur KR og ÍR um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. Mikil spenna hefur skapast meðal áhugamanna og ljóst að leikurinn á laugardag verður gífurlega áhugaverður. 

Það verður svo sannkölluð CrossFit hátíð um helgina í Laugardalshöll þegar Reykjavík CrossFit Championship fer fram í fyrsta skipti. Mótið hófst nú á föstudagsmorgun með Esjuhlaupi en alls eru 24 karlar og 29 konur meðal keppenda. Mótið er eitt af sextán mótum sem gefa þátttökurétt á heimsleikunum sem fram fara í Bandaríkjunum í ágúst. Ef þú sérð þér ekki fært um að mæta í Laugardalshöllina þá mun RÚV að sjálfsögðu sýna beint frá mótinu alla helgina.  

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Erla - RÚV

Megi mátturinn vera með þér
Það verður svo auðvitað að minnast á það að á laugardaginn er haldinn hátíðlegur StarWars dagurinn svokallaði. Dagurinn er haldinn hátíðlegur 4. maí ár hvert þar sem dagsetningin: „May the fourth, er skemmtilegur orðaleikur á eina frægustu setningu kvikmyndanna: „May the force be with you.“ Ef þig vantaði afsökun til að horfa á allar myndirnar aftur, fara í Stormtrooper búninginn þinn eða tala eins og Yoda í heilan dag, þá er um að gera að nýta tækifærið á laugardaginn.