Þessi lög skaltu hafa á hreinu í brekkunni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þessi lög skaltu hafa á hreinu í brekkunni

01.08.2019 - 10:30
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er rétt handan við hornið og þá er betra að rifja upp lögin sem maður þarf að hafa á hreinu í brekkunni þetta árið.

Eyjarós - Bjartmar Guðlaugsson
Það er náttúrulega ekki hægt að mæta á Þjóðhátíð án þess að hafa í það minnsta lært viðlagið við þjóðhátíðarlag ársins. Að þessu sinni var það Bjartmar Guðlaugsson sem sá um gerð lagsins og það eina sem þú þarft að gera er að rugga og raula með.

Sumargleðin - Doctor Victor ásamt Gumma Tóta og Ingó Veðurguð
Þrátt fyrir að vera ekki eiginlegt þjóðhátíðarlag þá er „Sumargleðin“ sennilega sumarlag ársins. Við skulum éta hattinn okkar ef þetta verður ekki spilað á einhverjum tímapunkti enda leiðir Ingó sjálfur brekkusönginn. Veðurguðinn lofaði því sömuleiðis að redda sól sem við treystum auðvitað á að hann geri. 

Eitt lag enn - Stjórnin
Stjórnarmeðlimir munu stíga á svið á föstudagskvöld og trylla lýðinn. „Eitt lag enn“ er auðvitað einn af þeirra helstu slögurum og ef þú kannt lagið ekki nú þegar ættir þú alvarlega að íhuga að afsala þér íslenskum ríkisborgararétti. 

Ó Herjólfur - Sprite Zero Klan
Partýbandið Sprite Zero Klan gaf út þetta ágæta þjóðhátíðarlag fyrr í sumar sem er byggt á hinu klassíska lagi „Ó María mig langar heim.“ Þeir munu koma fram á föstudagskvöld og trylla lýðinn. Við mælum sömuleiðis með því að kunna þjóðhátíðarlagið þeirra frá því í fyrra, „Lundinn í Dalnum.“ 

Say You'll Be There - GRL PWR
Ábreiðubandið GRL PWR hefur komið fram við góðar undirtektir undanfarið ár eða svo og nú mæta þær á stærsta svið landsins á sunnudagskvöldið. Þær hafa auðvitað aðallega verið að taka Spice Girls-lög en hver veit nema þær séu með eitthvað fleira í pokahorninu. 

Þar sem hjartað slær - Sverrir Bergmann og Fjallabræður
Eitt er víst, þetta lag verður sungið hástöfum í brekkunni og ef þú færð ekki gæsahúð þá er lítið sem við getum gert. Lærðu þetta lag og öskraðu með, helst þannig að þú missir röddina.