„Þessi læknir hefur ekki vandað mér kveðjurnar“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki kemur til greina að loka tilteknum landsvæðum á þessu stigi, eins og hugmyndir hafa verið uppi um á norðausturlandi. Þetta sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann segir að sú niðurstaða sé studd bæði fræðilegum og sögulegum rökum.

Atli Árnason og Sigurður Halldórsson, læknar á norðausturlandi, vilja að lokað verði fyrir umferð inn á svæðið, til þess að koma í veg fyrir að COVID-19 smit berist þangað. Frá þessu var greint í Morgunblaðinu í dag. Í umdæmi Atla og Sigurðar eru meðal annars Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn. Í erindi sem þeir hafa sent frá sér benda þeir á að ekkert smit hafi enn greinst á svæðinu, en að þar búi margir sem séu í áhættuhóp þegar kemur að smiti.

„Hvað ætla menn að gera þá?“

Lög­reglu­stjórn­in á Norður­landi eystra hefur rætt málið við sóttvarnarlækni, sem vill ekki loka landshlutanum. Atli hefur gagnrýnt þá niðurstöðu harðlega. Þórólfur var spurður um málið á upplýsingafundinum í dag.

„Það er rétt að þessi læknir hefur ekki vandað mér kveðjurnar núna undanfarið og það er bara allt í lagi með það,“ sagði Þórólfur. „En menn verða að hafa einhver rök fyrir því að vilja gera þetta því að það getur kostað sveitarfélagið og svæðið mjög mikið að gera þetta. Og þessar tillögur sem komu fram voru mjög óraunhæfar. Í fyrsta lagi að leyfa fólki að fara út af svæðinu, og leyfa fólki að koma aftur inn á svæðið, og fara í sóttkví í einhvern ákveðinn tíma. Við vitum að stór hluti er einkennalítill eða einkennalaus, og í mínum huga er þetta algjörlega óraunhæf aðgerð.“

Því segir Þórólfur ekki koma til greina á þessu stigi að loka tilteknum landshlutum.

„Og eins og ég sagði áður, þá er það bæði stutt fræðilegum rökum og sögulegum rökum. Og ef menn vilja vernda þennan hóp núna og halda að menn geti gert það með þessum aðgerðum, kannski myndi það takast, en þá myndu þeir fá hann aftur. Hvað ætla menn að gera þá?“

Fyrr á fundinum í dag ræddi Þórólfur um mögulegt samgöngubann, þar sem fólki yrði bannað að ferðast á milli landshluta. Þórólfur sagði að árangur gæti náðst með slíku banni ef það væri mjög strangt, og ef því væri beitt í mjög langan tíma, mögulega eitt til tvö ár. Með slíku banni megi fresta faraldrinum, en hann muni þó alltaf koma að lokum í viðkomandi landshluta. Þegar spænska veikin geisaði árið 1918 hafi tekist að hefta faraldurinn í ákveðnum landshlutum, en hann hafi þó komið þangað síðar með alvarlegum afleiðingum. Það sé því skammgóður vermir að beita samgöngubanni og það verði því ekki gert nú.

Fréttin hefur verið uppfærð.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi