Þeim fjölgað mikið sem leita til Píeta samtaka

21.09.2019 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björk Jónsdóttir, formaður Píeta samtakanna, segir að gera þurfi meira fyrir þá sem takast á við sjálfsvígshugsanir. Þeim sem leita til samtakanna hefur fjölgað mjög á síðasta ári. 

Á fyrstu tveimur vikum september mánaðar hafa 58 viðtöl verið tekin hjá Píeta samtökunum sem er nýtt úrræði í sjálfsvígs og sjálfsskaðaforvörnum. Það er umtalsverð aukning í fyrra þegar 54 viðtöl voru tekin á öllum september mánuði. 

Björk Jónsdóttir, stjórnarformaður Píeta-samtakanna, segir að fyrst hafi verið byrjað að bjóða upp á viðtöl í mars í fyrra og síðan þá hafi aðsókn aukist mikið. „Ég held það sé ekki nokkur spurning að fólk er orðið meðvitaðra og það náttúrulega veit af okkur. Við erum svolítið ný, erum ekki búin að vera lengi starfandi, bara í eitt ár og það er náttúrulega okkar markmið að hafa þessa vitundarvakningu og vinna að forvörnum þannig að fólk þurfi ekki að ganga þessa leið.“ 

Björk segir að um 53% séu konur og 47% prósent karla. Það hafi þó ekki alltaf verið þannig. „Það gæti kannski helgast af því að kannski eiga karlmenn erfiðara að stíga þetta skref og koma og tala um tilfinningarnar sínar. En það hefur líka breyst, í upphafi var þetta miklu fleiri konur þannig það er að jafnast þetta bil.“

Mesta aðsóknin er í aldurshópnum 18-29 ára - en aldur þeirra sem leita til samtakanna nær alveg upp í áttrætt. Hún segir að þessi aukna aðsókn sýni það svart á hvítu að mun meira þurfi að gera fyrir málaflokkinn. „Það þarf bara að byrja miklu fyrr, það þarf að byrja með yngri krakka í forvörnum. Og það þarf að setja meiri pening í þetta - við erum algjörlega háð styrkjum og gjafafé þannig starfsemi okkar gengur svolítið út á velvild annarra þannig það þarf að setja meira í þennan málaflokk ekki spurning. Hvert mannslíf er svo dýrmætt, við megum ekki missa það frá okkur.“

Einstaklingur sem leitar til Píeta samtakanna á kost á að fá allt að 15 viðtöl án endurgjalds. Björk segist sjá og finna að þjónustan hafi hjálpað mikið. „Og ég hef hitt marga sem hafa farið í gegnum vinnuna hjá okkur og það er mjög ánægt. Svo ég vísi í eina manneskju sem sagði við mig í ágúst: af því þið komuð inn í mitt líf þá er ég hér í dag, annars væri ég annars staðar.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi