Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þegar sveitirnar ólu upp þéttbýlisbörnin

30.10.2019 - 16:51
Börn · Innlent
Mynd: Gunnar Rúnar Ólafsson. Ljósmy / Gunnar Rúnar Ólafsson. Ljósmy
Tveir af hverjum fimm núlifandi Íslendingum voru sendir í sveit á sumrin. Þetta kemur fram í viðamikilli rannsókn um hvers vegna krakkar voru sendir í sveit. Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði, sem stóð að rannsókninni, segir að í raun hafi sveitunum verið falið eða verið fengið það hlutverk að ala upp þéttbýlisbörnin.

 

Ég var þarna í fimm sumur, frá maí fram í október. Ég kláraði alltaf göngurnar. Skólinn byrjaði 1. október, en síðustu göngur voru 8. október og ég fór ekkert í bæinn fyrr. Skrópaði bara í skólanum.

Ég fór með rútu. Það var nú ekki eins og það væru brýr eða göng á leiðinni. Þetta voru vondir malarvegir og ég var svo bílveik að ég ældi alla leiðina vestur.

Súrt saltað og heimabakað

Hér að ofan eru brot úr reynslusögum þeirra fjölmörgu barna sem send voru í sveit á sumrin fram eftir síðustu öld. Samkvæmt rannsókn sem Jónína og Geir Gunnlaugsson prófessor í hnattrænni heilsu og barnalæknir unnu ásamt fleiri fræðimönnum um sveitardvöl barna kemur fram að tveir af hverjum fimm núlifandi Íslendingum hafi verið sendir eða farið í sveit. Einn fimmti hafi alist upp í sveit. Tveir fimmtu fóru ekki. Athyglisvert er að helmingur þeirra vildi fara en fékk ekki sveitapláss. Fjölmargir leggja hönd á plóg í rannsókninni sem nú hefur verið gefin út í tveimur bókum: Send í sveit: Þetta var í þjóðarsálinni og Send í sveit: Súrt, saltað og heimabakað.

En hvers vegna voru börn send í sveit?

„Ég tel að sveitunum hafi verið úthlutað þessu svokallaða uppeldishlutverki að ala upp þéttbýlisbörn. Kenna þeim að vinna. Það var líka í pakkanum að læra að meta náttúruna, umgangast dýr og það var mikil áhersla lögð á að sveitirnar væru vagga íslenskrar menningar. Þar væri fallegasta tungumálið talað og svo framvegis. Það var talið mikið un reglufestu sveitanna, að börn sem ólust upp á götunni í bæjarsollinum hefðu ekki gott af því að kynnast reglufestu. Þessi reglufesta endurspeglast til dæmis í mjög regluföstum máltíðum," segir Jónína Einarsdóttir.

Svo fólst reglusemin líka í störfum. Sauðburður að vori, stinga út úr húsunum, heyskapur og leitir að hausti. 

Mynd með færslu
Jónína Einarsdóttir

Sveitirnar skorti vinnuafl

En helgast ekki þessi siður að börn færu í sveit af því að landbúnaðurinn þurfti á vinnuafli að halda? Jónína bendir á að upp úr aldamótunum 1900 og eftir að vistafestan leystist upp hafi orðið talsverð vinnuekla í sveitum.

„Þá eru margir sem leggja til að börn geti þá komið og leyst þetta vinnufólk af sem hafði flúið sveitirnar," segir Jónína.

Nánar er rætt við Jónínu í Speglinum og hlusta má á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV