Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þegar maður vill nánast komast inn í fólk

Mynd: Íslenski dansflokkurinn / Íslenski dansflokkurinn

Þegar maður vill nánast komast inn í fólk

20.09.2019 - 16:09

Höfundar

„Þel er eins konar líkami eða jafnvel lífvera hóps, hugmyndin varð eiginlega til út frá hugsunum um hópinn og það að vinna saman og vera saman. Líka láta reyna svolítið á það samband,“ segir Katrín Gunnarsdóttir danshöfundur en Íslenski dansflokkurinn frumsýnir í kvöld verkið Þel, sem hún hefur unnið í samvinnu við dansarana. Rætt var við Katrínu í Víðsjá á Rás 1. 

Katrín segir samvinnu lykilatriði í danslistinni, hún sitji ekki bara heima og fái hugmyndir sem hún hrindi einráð í framkvæmd. „Æfingaferlið er mjög lifandi og þótt ég sé með mína nótubók og hugmyndir um það hvert skuli stefna þá verður þetta mikið til innan hópsins. Íslenski dansflokkurinn sem slíkur á sér líka eitthvert hópsjálf og hóporku sem ég kem inn í og mæti. Við notum líka spuna sem við tökum upp á vídeó og getum þannig fangað það ósjálfráða og notað í verkið. Þá er hægt að læra aftur eitthvað sem var ómeðvituð hreyfing.“

Mynd með færslu
 Mynd: Íslenski dansflokkurinn
Íslenski dansflokkurinn býr yfir eigin hóporku, segir Katrín.

Náin samvinna

Katrín segir að vissulega sé samvera og samvinna dansarana í hóp eins og Íslenska dansflokknum mjög náin og hún geti verið snúin. „Ég er líka stundum að setja þeim fyrir verkefni eins og að biðja þau að hreyfa sig saman í takt, en láta bara vera nokkurra sentimetra bil á milli líkama. Þá þarf fólk að leita málamiðlana til að vinna saman. En ef maður víkkar þetta út þá er þetta auðvitað eilífðarverkefni hjá okkur öllum sem samfélagi og sem manneskjum, við erum öll að reyna að lifa saman. Þetta er bara smækkuð mynd af því.“

Mynd með færslu
 Mynd: Íslenski dansflokkurinn
Í Þeli vinnur Katrín líka með eiginleika sem oft eru metnir „kvenlegir“, t.d. mýkt, nánd og hið hljóðláta og brothætta.

Annað og meira en skilningur

En hvernig er best, fyrir þann sem kemur að nútímadansi með opnum hug, að nálgast listformið?

„Mér finnst mjög gott að segja fólki að reyna að sleppa því að ætla að reyna að skilja þetta eins og frásögn í hefðbundu leikhúsi, heldur frekar að hugsa hvernig þú upplifir myndlist eða tónlist sem þú skilur að einhverju leyti en er líka mikilvægt að upplifa og skynja með öðrum hætti. Við erum hins vegar öll orðin svo læs á myndmál í dag og við erum læs á líkamstjáningu þannig að það er hægt að lesa ýmislegt í þetta verk. Það er til dæmis um það hvernig einstaklingar reyna að fara nær og nær hvor öðrum, kannski lengra en mögulegt er að fara, nánst inn í hvern annan. Það er bara um að gera að reyna að kúpla sig út úr hversdeginum og horfa á þetta eins og ljóð eða tónlist.“

Viðtalið við Katrínu Gunnarsdóttur um Þel má heyra hér í spilaranum að ofan. Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu dansflokksins. Tónlistin í innslaginu er úr verkinu og er eftir Baldvin Þór Magnússon. 

Mynd: RÚV / RÚV
Einnig var fjallað um Þel í Menningunni á RÚV.