Katrín segir samvinnu lykilatriði í danslistinni, hún sitji ekki bara heima og fái hugmyndir sem hún hrindi einráð í framkvæmd. „Æfingaferlið er mjög lifandi og þótt ég sé með mína nótubók og hugmyndir um það hvert skuli stefna þá verður þetta mikið til innan hópsins. Íslenski dansflokkurinn sem slíkur á sér líka eitthvert hópsjálf og hóporku sem ég kem inn í og mæti. Við notum líka spuna sem við tökum upp á vídeó og getum þannig fangað það ósjálfráða og notað í verkið. Þá er hægt að læra aftur eitthvað sem var ómeðvituð hreyfing.“