Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þegar Forsetinn fórst

27.02.2018 - 07:30
Mynd:  / RÚV/Landinn
Jón forseti RE 108 var fyrsti togarinn sem smíðaður var sérstaklega fyrir Íslendinga. Hann var smíðaður á Englandi fyrir útgerðarfélagið Alliance hf í Reykjavík og sigldi fyst til heimamafnar í janúar árið 1907. Jón forseti var 233 brúttórúmlestir og þótti mjög til hans vandað. Með komu hans hófst bylting í atvinnusögu íslensks sjávarútvegs og atvinnulífs.

Kafla forsetans í þeirri sögu lauk  á sviplegan hátt í lok febrúar árið 1928 við Stafnes, skammt frá Sandgerði. Þar strandaði Jón forseti og af áhöfninni björguðust tíu en fimmtán fórust. Þetta sjóslys var hvatinn að stofnun fyrstu björgunarsveitanna innan Slysavarnarfélags Íslands, Sigurvonar í Sandgerði og Þorbjarnar í Grindavík. Stofnun mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur má líka rekja beint til þessa hörmulega sjóslyss en hún var sett á laggirnar vegna þess að í kjölfar slyssins urðu fimmtán fjölskyldur í Reykjavík fyrirvinnulausar. 

gislie's picture
Gísli Einarsson
eddasif's picture
Edda Sif Pálsdóttir