Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þegar eltihrellir sendi Björk sprengju

Mynd: Skjáskot / Skjáskot

Þegar eltihrellir sendi Björk sprengju

11.05.2019 - 09:08

Höfundar

Árið 1993 höfðu Sykurmolarnir lagt upp laupana og Björk Guðmundsdóttir hóf sólóferil sinn fyrir alvöru. Lagið „Human Behaviour“ varð fyrsti stóri smellur hennar á alþjóðavísu, hlaut mikla spilun á MTV og lof gagnrýnenda. Með fyrstu plötu sinni, Debut, náði Björk, sem þá var 28 ára, eyrum heimsins og því miður, fangaði hún einnig hug mjög veiks manns, Ricardos Lopez.

Saga Lopez var rifjuð upp í Gráum ketti á Rás 1. Hægt er að hlýða á hana í spilaranum hér að ofan auk þess sem hún er reifuð hér fyrir neðan í rituðu máli. Í hljóðútgáfunni eru spiluð brot úr myndskeiðum af Lopez. Athygli er vakin á að báðar útgáfur geta vakið óhug enda koma þar fyrir meiriháttar kynþáttafordómar, kvenhatur, ofbeldi og sjálfsvíg.

Þeim sem eiga um sárt að binda vegna sjálfsvígshugsana er bent á Hjálparsíma Rauða Krossins 1717 sem og netspjallið á raudikrossinn.is þar sem tekið er fram að ekkert vandamál er of stórt eða of lítið fyrir Hjálparsímann.

Hörfaði inn í hugaróra

Lopez fæddist í Úrúgvæ 14. janúar 1975 en ólst upp í Bandaríkjunum. Hann átti fáeina vini en var almennt ómannblendinn og átti aldrei kærustu eða vinkonu. Hann hugðist verða heimsfrægur listamaður og hætti í menntaskóla með það fyrir augum en lagði þó aldrei metnað eða vinnu í listferil sinn. Þess í stað hörfaði hann í auknum mæli inn í heim sem aðeins var til í hans hugarfylgsnum, þar sem líf hans og heimsfrægra einstaklinga runnu saman í eitt.

Upprunalega var Lopez heltekinn af leikkonunni Geenu Davis en þegar hún tók saman við finnska leikstjórann Renny Harlin reiddist hann henni mjög. Hann var þó fljótur að finna nýtt viðfang þráhyggju sinnar, nefnilega Björk Guðmundsdóttur.

Þráhyggjan óx með árunum. Lopez hélt dagbók sem varð í allt 803 síður og innihélt 408 vísanir í Björk. Honum var einnig tíðrætt um hversu ófullkominn og misheppnaður hann væri, hvað hann væri feitur og að hann væri ófær um að finna sér kærustu. Að auki þjáðist hann af gynecomastiu eða karlabrjóstamyndun sem olli honum mikilli vanlíðan. Sjálfsmynd hans var í molum.

Tilfinningar Lopez til Bjarkar virðast ekki hafa verið kynferðislegar. Hann skrifaði meðal annars að hann gæti ekki stundað kynlíf með Björk af því að hann elskaði hana. Þrátt fyrir að hún væri 10 árum eldri en Lopez sá hann hana sem saklausa, barnslega veru og dreymdi um að ferðast aftur í tímann og vingast við hana í barnæsku, að hún veitti honum einhvers konar viðurkenningu. Hann vildi hafa áhrif á líf hennar.

Upplifði sambandið sem svik

Lopez sankaði að sér upplýsingum um Björk og líf hennar, þá helst í gegnum sjónvarpið og slúðurblöð. Netið var á þessum tíma enn að slíta barnsskónum og ekki komið í almenna notkun. Hann las því stíft tímarit á borð við Entertainment Weekly og það var einmitt þannig sem hann komst að því, árið 1996, að Björk væri í tygjum við breska rapparann Tricky. Lopez fannst sambandið vera svik, ekki síst vegna þess að Tricky er svartur. Það var þá, sem Lopez hætti að skrifa dagbók og hóf þess í stað að taka hugsanir sínar upp á myndband. Í einni slíkri færslu notaði hann rasískt níðyrði um Tricky og sagði að það væri með öllu óviðunandi að Björk sængaði hjá honum.

„Og ah…” hélt hann áfram, „ég þarf bara að drepa hana”

Lopez leit svo á að hann yrði að myrða Björk. Hann tók upp ellefu spólur, um tvo tíma af myndefni á hverja, sumsé tuttugu og tvær klukkustundir í heildina. Í myndböndunum er hann yfirleitt nakinn og umkringdur ruslahrúgum í pínulítilli íbúð sinni. Lopez var sannfærður um að hann væri ástfanginn af Björk og jafnvel þótt honum væri bent á að hann þekkti hana ekki, hefði ekki einu sinni hitt hana taldi hann sig bundinn henni.

Hann vildi ekki enda eins og Charles Manson sem eyddi ævinni í fangelsi fyrir að skipuleggja sjö morð, þar á meðal á leikkonunni Sharon Tate. Í stað þess að ráðast að Björk í eigin persónu ákvað hann að senda bréfasprengju.

Upprunalega átti bréfasprengjan að innihalda HIV-mengaðar nálar. Það reyndist of flókin aðgerð svo hann ákvað að búa fremur til bréf með brennisteinssýru. Hann tók sér reyndar stutt hlé frá undirbúningnum til að huga að af móður sinni sem hann vissi að hefði áhyggjur af honum. Í júlí 1996 sá hann nýjar fréttir af ástarlífi Bjarkar.

„Spin Magazine, ég held það hafi verið í síðasta mánuði, birti mynd af Björk með manni sem ber nafnið Goldie. Svörtum manni,” sagði Lopez við myndavélina sína. „Hún er víst að fara að giftast honum í haust. Ég þarf bara að drepa hana.”

Myndi deyja sem skrímsli

Lopez byrjaði að búa til bréfasprengjuna, raulandi, allsnakinn fyrir utan svarta gúmmíhanska. Hann klæddi sig þó fljótlega í einhvers konar hlífðarbúning, úr regnjakka og svörtum ruslapoka, að því er virðist. Lopez ímyndaði sér að sprengjan myndi annað hvort afmynda Björk eða verða henni að aldurtila. Ef svo færi, trúði hann að þau yrðu sameinuð á himnum. Lopez hugðist sjálfur ekki lifa næstu mánuði.

„Við búum í heimi skrímsla ... hann tilheyrir þeim,” sagði Lopez í myndskeiði um það leyti sem hann sendi pakkann til Bjarkar. „Ég dey sem skrímsli, ég ætla ekki að deyja saklaus maður.”

12. september 1996 rakaði Ricardo Lopez allt hárið af höfðinu á sér. Hann málaði rauðar og grænar rendur á andlitið á sér, skallann og hálsinn. Hann settist niður við gulnaða rúmdýnuna sína, allsnakinn. Í bakgrunni ómaði tónlist Bjarkar, „Venus as a boy,” og svo „I remember you.”

Fjórum dögum síðar fann viðgerðarmaður í íbúðinni fyrir neðan Lopez megnan óþef og sá blóð leka úr loftinu. Lögreglan fann líkið, spólurnar og skilaboð á veggnum um að þær innihéldu gögn um hryðjuverk. Lögreglan hafði samband við kollega sína í Bretlandi til að vara við pakkanum, sem fannst á pósthúsi í suðurhluta Lundúna og var eytt með öruggum hætti.

Bara rosalega sorglegt

Sprengjan hefði auðvitað aldrei komist til Bjarkar. Allur póstur til hennar fór í gegnum umboðsskrifstofuna hennar og því hefði einhver önnur saklaus manneskja líklega opnað bréfasprengjuna fyrst. Goldie hefði líka ekki komið nálægt pakkanum, þau Björk slitu sambandi sínu nokkrum dögum áður en Lopez sendi hann.

Björk ræddi við blaðamenn utan við heimili sitt í Lundúnum 18. september 1996.

„Ég hef meiri áhyggjur af syni mínum en mér en hann tekst á við þetta af hugrekki,” sagði hún. „Það er bara rosalega sorglegt þegar einhver skýtur af sér andlitið, það er hræðilegt. Ég held ekki að mig dreymi fallega um nokkra hríð.”

Björk sendi fjölskyldu Lopez blóm og samúðarkveðju. Hún fluttist til Spánar stuttu síðar þar sem hún tók upp plötuna Homogenic.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Dularfullu veikindin upplýst rétt í tæka tíð

Menningarefni

Verðurðu karlmaður þegar það er búið?

Menningarefni

Var með hiksta í hálfan mánuð