Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þau þrífast ekki í almennum úrræðum“

26.10.2019 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Ingvarsson - RÚV
„Geðheilbrigðisþjónusta almennt hentar mjög illa fyrir fólk með þroskahömlun og einhverfu vegna þess að þau þurfa sértaka aðlögun vegna fötlunar sinnar,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Landsamtökin Þroskahjálp stóðu fyrir ráðstefnu um þjónustu fólks með þroskahömlun og einhverfu sem þarf á geðheilbrigðisþjónustu að halda.

„Vandinn er sá að þau þrífast ekki í almennum úrræðum hvort sem við erum að tala um geðrænan vanda almenn eða fíknivanda. Þannig að þau ná ekki fótfestu í lífinu og við erum að horfa á eftir þeim; jafnvel að þau lifi þetta ekki af,“ segir Bryndís.

„Og bjargarleysið er slíkt að þau fara á milli aðila og allir lyfta upp höndunum og segja það þarf að gera eitthvað fyrir þau en það er ekki á minni ábyrgð. Þannig að þetta lendir yfirleitt í fanginu á foreldrum sem eru ráðalausir.“

Þurfa aðlögun að þjónustunni

Fjölmenni var á ráðstefnunni á Grand hóteli í Reykjavík í morgun. Þar ræddi fagfólk, fræðimenn og aðstandendur um þau úrræði og þann vanda sem fólk með þroskaskerðingu og einhverfu stendur frammi fyrir ef það glímir við fíkni- og geðheilbrigðisvanda.

Til þess að þetta fólk geti notið þeirrar þjónustu sem það þarfnast þarf að aðlaga geðheilbrigðisþjónustuna að fólkinu. „Það þarf oft að hafa skýrari skilaboð, jafnvel að nota myndir og þess háttar. Þannig að geðheilbrigðisþjónusta fyrir þau þarf að vera á allt öðru formi en gengur og gerist,“ segir Bryndís.

Spurð hvor það séu margir sem glími við geð- eða fíknivanda segist Bryndís halda að það séu hlutfallslega fleiri í hópi þessara einstaklinga en almennt gengur og gerist. Hún segir erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á þetta.

Stjórnvöld vita af stöðunni

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var gestur ráðstefnunnar. Bryndís segir hana hafa greint ráðstefnugestum frá því að innan heilbrigðisráðuneytisins sé vinna hafin við að skoða þessi mál. Þá hafi forsvarsmenn Þroskahjálpar áður átt fund með ráðherra um málið. „Við hittum hana nýverið og fórum yfir þetta með henni þannig að stjórnvöldum á að vera ljóst að það verður að grípa til einhverra ráða.“

Margir fyrirlesarar á ráðstefnunni í morgun komu inn á leiðir til lausna og Bryndís segir að þær leiðir verði teknar saman og sendar ráðherra.