Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þau kúka, pissa, ropa, æla og grenja

Mynd: RÚV / RÚV

Þau kúka, pissa, ropa, æla og grenja

20.02.2020 - 09:15

Höfundar

Leiksýningin Mæður í Iðnó er fyrir allar mæður, ungar og gamlar, segir María Kristjánsdóttir gagnrýnandi. „Undir lokin þegar vinátta hefur myndast meðal kvennanna á sviðinu og þær lofsyngja mæður sínar þá teygir sú vinátta sig yfir alla salinn, vinkvennahópurinn verður risastór.“ 

María Kristjánsdóttir skrifar:

Í nístandi kuldanum síðastliðið fimmtudagskvöld kvökuðu svanirnir og ungar þeirra á tjörninni grimmilega þar sem þeir húktu fyrir framan Iðnó. Inni í Iðnó-salnum yfirfullum af ungum konum var líka kvakað en af miklu fjöri, kátínu og eftirvæntingu.

Eftirvæntingarfullar vorum við líka ömmurnar tvær, þó það snerti okkur eðlilega að vera þarna algjörir aldurforsetar. Minntar illilega á hversu asskoti langt síðan við urðum mæður. En hvernig strákunum leið sem einnig voru bara tveir í salnum, veit ég ekki, því ekki heyrðist í þeim bofs. Heldur ekki í ungabarninu sem var þarna, en ungabörn og börn eru velkomin á sýninguna.

„Mæður“ heitir verkið og þýtt af Kristínu Björgu Guðmundsdóttur. Höfundar eru fjórar danskar konur. Þær: Christina Sederqvist, Julia Lahme, Mette Marie Lei Lange og Anna Bro. Hér segir frá þeirri lífsreynslu sem flestar konur ganga í gegnum, það að verða mæður. Eða réttara sagt þegar við, eftir nokkur átök, stöndum með í fanginu veru en ekki vöru sem hvorki er hægt að  skila né skipta út. Og sú vera stjórnar lífi manns eftir það ansi lengi. Hér segir þó einkum frá reynslunni af að fæða barn og fyrsta árinu, eftir fæðinguna. Reyndar er það eins og dönsku stöllurnar fjórar hafi ákveðið að taka þar upp þráðinn sem samlanda þeirra rithöfundurinn og grafíklistakonan Dea Trier Mørch sleppti honum í bókinni „Vinterbørn“. En sú bók kom út á áttunda áratugnum og olli straumhvörfum innan kvennahreyfingar á Norðurlöndum og víðar. En í henni dró Trier Mørch  upp myndir af fjölda kvenna sem biðu fæðingar á sömu deild og hún, sérstakri deild fyrir erfiðar fæðingar. Hún sagði reynslusögur kvenna þar og frá vináttu og samstöðu sem myndaðist þeirra í millum.

En nóg um söguna. Í Iðnó skapar Hildur Selma Sigbertsdóttir einfalda táknræna mynd af barnaherbergi neyslusamfélagsins á þröngu sviðinu. Í bakgrunni rómantískar, silfraðar, marglitar silkiræmur sem ná frá lofti til gólfs og eru jafnvel eins og í kabarett eða sirkus. Að baki þeirra innkomuleiðir.  Sígildar leikmottur barnaherbergja eru á gólfi og einn IKEA-turn stendur þar til alls kyns brúks. Tröppur liggja niður í salinn og skapa tilfinningu um að salur og svið séu ein heild.

Enda eru leikarar ýmist í beinu sambandi við áhorfendur í samtali eða  eintölum, ásamt því að leika fjórar ólíkar konur sem mættar eru með burðarrúmin sín í mæðrahóp hjá ungbarnaeftirlitinu. Þær eiga það eitt sameiginlegt að hafa eignast barn um svipað leyti. Þarna eru þær: Móa, einstæð móðir, leikin af Lilju Nótt Þórarinsdóttur, sem fékk löngun til að eignast barn ein og sjálf og nýtti sér sæðisgjafa. Andrea, sú óörugga, stöðugt með nefið ofan í bókastöflum um ungabörn ef hún er ekki að gúggla sama efni. Hana leikur Aðalbjörg Árnadóttir. Fífa, lesbían, hin fullkomna móðir sem gerir allt rétt eða sú sem á eina barnið sem sefur alltaf á nóttunni, er leikin af Maríu Hebu Þorkelsdóttur. Og svo er það Júlí, mamma Kristínar Árnadóttur, sem í upphafi er alveg að niðurlotum komin því hún hefur eignast barn með ungbarnakveisu sem grætur og grætur.    

Við kynnumst þeim smátt og smátt í gegnum samveru þeirra í mömmuhópnum, hvað þær heita, hvað börnin þeirra heita, fjölskylduaðstæðum þeirra. Á milli þess sem þær gera líkamsæfingar, miðla þær af reynslu sinni, reynslu annarra, takast á við klisjurnar,lygarnar um móðurhlutverkið. Allt er rætt: ófrjósemi, ættleiðingar, gervifrjóvgun, kynlíf, meðgangan, fæðingin, keisaraskurðir, fæðingarþunglyndi, svefnleysi, föðurhlutverkið, skilnaðir. Og elsku börnin, börnin sem kúka, pissa, ropa, æla og grenja. Mest þó um þær kröfur sem barnið og umheimurinn gerir til þeirra. Tilraunir þeirra að reyna að ná valdi yfir eigin lífi, verða aftur „þær sjálfar“, en ekki bara þjónustumiðstöð fyrir barnið og kröfur þess. Á okkar játningatímum stuðast sennilegar fæstir yfir hreinskiptninni enda höfundar lagnir í að gera hlutina kómíska. Margt er þar ansi fyndið og skemmtilegt og beint úr reynsluheimi okkar sem í salnum sitja. Og undir lokin þegar vinátta hefur myndast meðal kvennanna á sviðinu og þær lofsyngja mæður sínar þá teygir sú vinátta sig yfir alla salinn, vinkvennahópurinn verður risastór. 

Leikstjórinn Álfrún Örnólfsdóttir fer fínlega leið að verkinu, tengir sal og leiksvið án þess að það sé ágengt. Það gefst ekki mikið svigrúm á þröngu sviðinu til að koma með frumlegar lausnir. En hver persóna er dregin upp með skýrum, fáum kómískum dráttum og undirliggjandi duldar meiningar og dulin átök skila sér vel. Leikfimi mæðrahópsins umbreytist víða í tjáningu á sameiginlegum  tilfinningum. Leikkonurnar allar skapa sem sagt skemmtilega karaktera og gott að sjá aftur Lilju Nótt á leiksviði, ég hef saknað hennar.

Þetta er sýning fyrir allar mæður, ungar og gamlar, til að hlæja saman og skoða hvað þær eiga sameiginlegt. Ekki er það verra að hægt er að taka börn með sér. Hvort pabbarnir eigi líka að koma er ég ekki viss um. Það er kannski hætt við að þeim liði eins og þeir hafi ratað óvart inn í saumaklúbb.

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Örvænting og alsæla nýbakaðra mæðra

Leiklist

„Pabbar geta líka alveg verið mömmur“