Þau koma fram á Tónaflóði á Menningarnótt

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV

Þau koma fram á Tónaflóði á Menningarnótt

23.08.2019 - 13:30

Höfundar

Tónaflóð, árlegir stórtónleikar Rásar 2 á Menningarnótt, verður í beinni útsendingu á RÚV á laugardag frá Arnarhóli. ClubDub, Auður og GDRN hefja leik í boði RÚV núll og þeim fylgja eftir Vök, Valdimar og Hjaltalín. Sigga, Grétar og félagar í Stjórninni slá botninn í dagskrána.

Dagskrá Tónaflóðs hefst klukkan 19.45 og fyrstir á svið eru æringjarnir í ClubDub. Þá mæta þau Auður og GDRN sem eru án efa meðal vinsælustu flytjenda síðasta árs og flytja þau lög sín saman og hvort í sínu lagi við undirleik valinkunnra hljóðfæraleikara. Fyrsti hluti dagskrárinnar er í boði RÚV núll þar sem ungt dagskrárgerðarfólk er í aðalhlutverki en þá þjónustu ættu flestir að vera farnir að þekkja. Hver tónlistarveislan tekur svo við af annarri, Vök, Valdimar, Hjaltalín og loks Stjórnin sem telur með okkur niður í flugeldasýninguna sem hefst um kl. 23.

ClubDub

Poppdúettinn ClubDub skipa þeir Aron Kristinn Jónasson og Brynjar Barkarson. Þeir stigu sín fyrstu skref á Secret Solstice sumarið 2018. Sama ár kom út platan Juice Menu, Vol. 1 í samvinnu við taktsmíðateymið Ra:tio og voru þeir tilnefndir til verðlaunanna Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2018. Í vor kom út önnur plata þeirra, Tónlist, og hefur lagið Aquaman ómað á öldum ljósvakans í allt sumar. ClubDub gefa tóninn á Tónaflóði ársins.


Mynd:  / 
Auður ásamt hljómsveit flytur lagið Þreyttur af plötunni Afsakanir í Stúdíói 12.

Auður

Stjarna Auðuns Lútherssonar reis hátt á síðasta ári þegar plata hans Afsakanir gjörsamlega sló í gegn. Hún var plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum auk þess sem Auður var lagahöfundur ársins. Það verður gaman að heyra næstu skref Auðuns sem skrifaði á Twitter í haust að næstu lög myndu fjalla um ást, drauma, væntingar, alsælu, eiturlyf, Reykjavík, sólstöður, kraftaverk, stelpur, rósir, fingraför, Pétur Pan, minningar, einmanaleika, kynlíf og flugelda.


Mynd:  / 
GDRN flytur lagið Af og til í Vikunni með Gísla Marteini.

GDRN

Tónlistarkonuna GDRN ættu flestir landsmenn að þekkja. Þrátt fyrir að aðeins sé hálft annað ár síðan Guðrún Ýr hóf að gefa út tónlist skaraði hún meðal annars fram úr á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár þar sem hún vann fern verðlan. Hún þykir hafa óvenjulega rödd og koma með óvænt áhrif inn í íslenska popptónlist. Hún vinnur nú að nýrri plötu með þeim Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni og Arnari Inga Ingasyni sem kallar sig Young Nasareth. 


Mynd: Gísli Berg / RÚV
Vök flytur lagið Night and Day í Stúdíói 12.

Vök

Mörg vötn hafa runnið til sjávar frá því að hljómsveitin Vök sigraði í Músiktilraunum fyrir sex árum. Vök gaf í vor út aðra breiðskífu sína, In The Dark, þar sem hver smellurinn rak annan og eflaust hefur aðdáendahópur hennar stækkað til muna. Þau Margrét Rán, Einar Stef og Bergur hafa spilað víða í sumar, bæði hér á landi og erlendis og hituðu meðal annars upp fyrir nýrómantísku risana Duran Duran í Laugardalshöll.


Mynd:  / 
Hljómsveitin Valdimar flytur lagið Stimpla mig út á afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna í vor.

Valdimar

Hljómsveitin Valdimar gaf út fjórðu plötuna á síðasta ári, Sitt sýnist hverjum, sem hlaut lofsverða dóma. „Án efa tilkomumesta verk Valdimars til þessa, og hugsanlega það besta,“ sagði Arnar Eggert Thoroddsen á Rás 2. Það er ekki nóg með að söngvarinn, Valdimar Guðmundsson, sé einn sá fremsti á landinu heldur er valinn maður í hverju rúmi í gæðasveitinni Valdimar.


Mynd:  / 
Hjaltalín flytur lagið Baronesse í Vikunni með Gísla Marteini.

Hjaltalín

Nýrrar hljómplötu frá hljómsveitinni Hjaltalín er beðið með eftirvæntingu. Það verður þeirra fjórða breiðskífa og er hún væntanleg á næstu vikum. Samhliða útgáfunni heldur sveitin stórtónleika í Eldborg í Hörpu. Síðustu lög hljómsveitarinnar hafa ratað beint á topp vinsældalista Rásar 2, lögin Baronesse og Love from 99, og gefa þau góða mynd af því sem hlustendur eiga von á. Það verður spennandi að sjá þau á Tónaflóði í ár.


Mynd:  / 
Stjórnin flytur Láttu þér líða vel í Stúdíói 12.

Stjórnin

Hin sívinsæla hljómsveit Stjórnin, með þau Siggu Beinteins og Grétar Örvars í fararbroddi, fagnaði þrjátíu ára starfsafmæli í fyrra og má segja að tónlist hljómsveitarinnar hafi lifað kynslóð fram af kynslóð. Stjórnin hefur leikið á als oddi síðustu misserin og þykir hafa gengið í endurnýjun lífdaga. Stjórnin lýkur Tónaflóði með trukki og dýfu og lætur okkur öllum líða vel, þetta líf er til þess gert.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hjaltalín og Stjórnin á Tónaflóði Rásar 2