Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þarf tvöfalt fleiri heimilislækna á Akureyri

28.01.2020 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Læknaskortur á Heilsugæslunni á Akureyri hefur verið viðvarandi síðustu tíu ár. Yfirlæknir segir skjólstæðinga ekki fá þá þjónustu sem þeir ættu að fá. Hann segir jákvæð tákn á lofti og á von á því að staðan verði breytt eftir ár.

“Heilsugæslan á Akureyri þyrfti allavega tvöfalt fleiri lækna til að geta sinnt þeirri þjónustu sem hún á að sinna, miðað við þá staðla sem miðað er við í íslensku heilbrigðiskerfi„ segir Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir heilsugæslunnar á Akureyri. Þau hafi í raun og veru bara rétt náð að halda sjó núna í tíu ár miðað við að fólk hafi verið að hætta vegna aldurs.

Skorturinn alþjóðlegt vandamál

Hann segir vanda heilsugæslunnar í hnotskurn vera sáran og alvarlegan skort á sérfræðingum í heimilislækningum. Ekki bara á Íslandi því það sé alþjóðlegt vandamál og sjúklingum fjölgar eftir því sem fólk lifir lengur.

Miðað er við að það séu 1500 skjólstæðingar á hvern heimilislækni á Íslandi. Í Reykjavík hafa þeir verið í kringum 1600 sem Jón Torfi segir vera hátt. Á Akureyri séu hins vegar tæplega 3000 skjólstæðingar á hvern heimilislækni.

Jákvæð tákn á lofti

Ljóst sé að skjólstæðingar fái ekki þá þjónustu sem þeir ættu að fá og biðtími sé langur. Þó sé reynt að forgangsraða og gerðar hafi verið skipulagsbreytingar sem hjálpi til. Nýtt bókunarkerfi geri það að verkum að hægt er að forgangsraða og koma þeim sjúklingum sem þoli enga bið fljótar að.

Það sé hins vegar ekki hægt að búa til fleiri tíma þó afköstin séu kannski meiri. Það sé unnið hörðum höndum að því að fá fólk í lengri og skemmri tíma til vinnu. Hann segir jákvæð tákn á lofti og von sé til þess að sérfræðingum og læknum sem hefji sérnám fjölgi á árinu; „Ef ég tek þennan punkt eitt ár fram í tímann þá getur maður reiknað með að það hafi fjölgað töluvert í hópnum“.