Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þarf stuðning og skilti í ferðaþjónustu

14.02.2016 - 19:45
Ferðamenn sem virða ekki lokanir, ósandaðir göngustígar og deilur um kostnað við að bæta úr aðstæðum eru meðal nokkurra vandamála sem blasa við vegna aukins fjölda ferðamanna. Staðarhaldari á Gullfossi gagnrýnir hið opinbera fyrir aðgerðarleysi.

Hávær umræða hefur verið um slys og óhöpp sem ferðamenn verða fyrir. Reynisfjara hefur verið í sviðsljósinu, en víðar þarf að bæta aðstæður.

Þegar fréttastofa var á ferð í Gullfossi á föstudag sást til ferðamanna sem ekki virtu girðingar, og fannst það í lagi.  „Það eru vissar manngerðir sem virðast hafa gaman af að taka mikla áhættu hvar sem þeir eru. Þeir verða svolítið fyrir óhöppum,“ segir Bjarni Dagur Jónsson leiðsögumaður.

„Við reynum að halda þessum keðjum við, setjum þær margoft um því þær eru slitnar niður,“ segir Ásta Magnúsdóttir rekstrarstjóri á Gullfossi. Algengt sé þó að ferðamenn virði ekki viðvaranir, hvorki frá leiðsögumönnum né á skiltum. Í gær fóru um fimmtíu manns niður keðjuvarinn stíginn þrátt fyrir viðvaranir.

Hálka er líka oft vandamál á kaldasta árstímanum. „Ég hef verið með farþega sem hafa dottið og rófubeinsbrotnað eða brákað á sér hendur á svellinu,“ segir Bjarni Dagur.

Ásta segir að staðarhaldarar hafi eftir síðasta vetur gefist upp á að hálkuverja stígana eftir að hafa haldið því lengi úti. „Og það er hreinlega kominn tími á að stóru orðin fari að gilda eitthvað. Uppbygging á ferðamannastöðum og þjónusta við ferðamenn, það hefur ekki kostað neitt til þess hér.“

Við Seljalandsfoss var glímt við ísi lagðar tröppur til að komast bak við fossinn. Sú glíma var nokkrum erfið, til dæmis fyrir Karl frá Belgíu. „Ferðamálayfirvöld gætu sett skilti um að stigarnir geti verið hættulegir fyrir fólk sem er ekki vant því að klifra. En það er ekki vandamál fyrir okkur. Við höfum gaman af ævintýrinu og vitum hvað við erum að gera.“

Hörður Þórhallsson framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála sagði í samtali við fréttastofu að tillögur væru væntanlegar í næsta mánuði um fyrstu aðgerðir til úrbóta á ferðamannastöðum.