Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þarf að vera skýrt hvernig brotaþolar sækja sér bætur

16.01.2020 - 10:28
Mynd með færslu
 Mynd: Auðunn Níelsson - RÚV
Í jafnréttislögum þarf að vera skýrt hvernig sá sem brotið er gegn sækir sér bætur að mati Katrínar Bjargar Ríkarðsdóttur, framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu.

„Einhvern veginn veltir maður fyrir sér þegar maður sér svona úrskurði hvort að ekki hafi í alvöru verið farið nægilega vel ofan í þá þætti sem þurfa að vera á hreinu þegar verið er að ráða og horft til kynjasjónarmiða,“ sagði Katrín Björg á Morgunvaktinni á Rás1.

Seðlabankinn braut jafnréttislög í þriðja sinn frá árinu 2012 við ráðningu upplýsingafulltrúa, að mati kærunefndar jafnréttismála. Þá greiddi ríkið 20 milljónir króna í bætur þegar ríkið greiddi 20 milljónir króna í bætur vegna þess að þingvallanefnd braut gegn sömu lögum þegar ráðið var í stöðu þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum. 

Hefur það engar afleiðingar ef að stofnanir eru allt að því síbrotamenn í svona löguðu? „Ekki nema kannski afleiðingar fyrir orðspor viðeigandi stofnana, vegna þess að ég held að fólk horfi mjög mikið til þessara þátta og taki þetta alvarlega. Þetta lítur ekki vel út ef maður getur orðað það þannig. Það eru engar fjárhagslegar afleiðingar að hálfu hins opinbera gagnvart stofnunum. Hins vegar, eins og við sáum í máli sem er nýlega búið að vera í umræðunni, þá þurfa stofnanirnar að semja við þann aðila sem brotið hefur verið gagnvart.“

Jafnréttislög eru í endurskoðun og Katrín segir að það bæta þurfi við leiðbeinandi þætti um bætur fyrir þann sem brotið er gegn.

„Það væri gott ef það væri kveðið á um hvernig eigi að nálgast það samtal að semja um bætur og annað slík, það er ekkert í úrskurðum kærunefndar sem að kveður á um það þannig fólk í sjálfu sér hefur ekki miklar leiðbeiningar þegar það er komið á þann stað að hafa fengið viðurkennt brot gagnvart lögunum,“ segir hún. Síðast voru lögin endurskoðuð heildstætt 2008.