Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þakklátt og þægilegt frá GDRN

Mynd: RUV / RUV

Þakklátt og þægilegt frá GDRN

26.03.2020 - 10:58

Höfundar

Viðmælendur Lestarklefans hrósuðu GDRN fyrir að prófa nýja hluti á nýútkominni breiðskífu sinni en kölluðu jafnframt eftir að íslenska tónlistarsenan myndi finna sinn einkennishljóm á ný í stað þess að apa upp eftir vinsælli tónlist frá útlöndum.

GDRN, sem heitir réttu nafni Guðrún Ýr Eyfjörð, gaf út sína fyrstu plötu árið 2018 en þar var á ferð platan Hvað ef? sem sló rækilega í gegn. Nýja platan er próduseruð af þeim Arnari Inga Ingasyni og Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni. Platan var til umfjöllunar í Lestarklefanum á Rás 1 og gestir að þessu sinni voru Steinþór Helgi Arnsteinsson viðburðahaldari, Ásgeir H. Ingólfsson skáld og Auður Albertsdóttir kynningarstjóri og ráðgjafi.

Steinþór Helgi segir plötuna tala vel til sín og að hún taki þarna hið klassíska þroskaskref eins og er algengt með plötu númer tvö hjá listafólki þar sem það prufar sig áfram með ögn flóknari hlutum. Steinþór nefnir sérstaklega hversu sterkt opnunarlagið sé og segist ánægður með að GDRN og próduserarnir tveir, þeir Arnar Ingi Ingason og Magnús Jóhann Ragnarsson, forðist að falla í þá gryfju að gera alveg eins og margir aðrir í senunni þar sem lítið er um alvöru hljóðfæri. Segist Steinþór Helgi vera ánægður með þann hljóm sem minnir á sálartónlist áttunda áratugarins í stað þess að eltast við nýjustu tískubylgjur skandinavískra fyrirmynda. 

„Full af frábærum lagasmíðum á þessari plötu, flottir textar hjá henni og heilt yfir er ég bara mjög ánægður,“ segir Steinþór Helgi. 

Auður Albertsdóttir segist hafa verið mikill aðdáandi GDRN og hafi því aðeins verið búin að kynna sér plötuna. Auður segist vera sammáli Steinþóri hvað varðar þróun tónlistarkonunnar. GDRN þurfti nýlega að fresta fyrirhuguðum útgáfutónleikum en Auður segist vonast til að hún fái að sjá hana á tónleikum fljótlega. „Það er mjög skemmtilegt örugglega að sjá þetta spilað, þetta er þannig tónlist,“ segir Auður. Hún nefnir sérstaklega tvo kvendúetta sem finna má á plötunni og taka aðrir viðmælendur undir að það sé hápunktar plötunnar. 

Sá gestur sem minnst hafði hlustað á GDRN hingað til var Ásgeir H. Ingólfsson en hann var ekki alveg að tengja við það sem hann hafði heyrt. „Það sem er frábært er að hún er alveg stórkostleg söngkona, en tónlistin er ekki alveg nógu organísk. Var allt í lagi en vantaði einhverja alvöru fyllingu í hana. Vantar eitthvað til að ná utan um stemninguna. Alls ekkert vont en ekkert gott heldur,“ segir Ásgeir og bætir við að rödd GDRN eigi meira skilið. Hann sé jafnframt á því að stærsti galli plötunnar séu textarnir við lögin, þeir séu mjög misjafnir. Rúmlega helmingur laganna sé með virkilega fínum texta en textarnir við 2-3 lög séu skelfilegir. 

Viðmælendur voru allir sammála að tónlistarsenan á Íslandi í dag sé ekki nógu frumleg og það vanti tilfinningalega einhvern sér íslenskan hljóðheim. Steinþór Helgi ber til dæmis saman grasrótina í dag við sömu senu fyrir 10-15 árum síðan þegar að hljómsveitir á borð við FM Belfast, Retro Stefson, Sprengjuhöllina og Hjaltalín voru að stíga sín fyrstu skref. „Ég er svolítið að bíða eftir því, sérstaklega að hip-hop senan, að það komi plata sem er ekki bara íslenskt hip-hop af því það er rapp á íslensku heldur bara hljóðheimurinn er, þú veist þetta er íslenski hip-hop hljóðheimurinn. Mér finnst hann dálítið vanta,“ segir Steinþór Helgi og ber íslensku senuna saman við þá brasilísku sem er með mjög einkennandi hljóm.

Þú getur hlustað á Lestarklefann í heild sinni hér.