Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þagði yfir íbúðakaupum í 20 daga

27.04.2015 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Menntamálaráðherra lét hjá líða í rúmar tvær vikur að upplýsa að stjórnarformaður Orku Energy hefði keypt íbúð hans vegna fjárhagsörðugleika ráðherra, þrátt fyrir að vera ítrekað spurður um tengsl hans við fyrirtækið.

Samskipti Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra og Orku Energy komust í hámæli í byrjun apríl. Þá var upplýst að fulltrúi Orku Energy hefði verið með ráðherra í heimsókn hans til Kína. Á sama tíma var upplýst að ráðherra var í launuðu starfi hjá Orku Energy eftir að hann vék af þingi tímabundið eftir hrun.

Þráspurður um samband við Orku Energy

Fjölmiðlar hafa, á þeim tæpu þremur vikum sem liðnar eru, þráspurt ráðherra um samskipti hans við Orku Energy og ráðamenn þess. Hann hefur í engu getið þess að Haukur Harðarson, stjórnarformaður fyrirtækisins hafi, eftir að Illugi settist í stól menntamálaráðherra, keypt af honum íbúð hans á Ránargötu í Reykjavík. Ekki heldur að hann hafi síðan leigt íbúðina af stjórnarformanninum.

Hann segir til að mynda við Fréttablaðið 9. apríl að tenging hans við Orku Energy sé frá þeim tíma sem hann var utan þings og hann segir við sama blað að hann hafi engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í tengslum við starfsemi Orku Energy.

Öll tengsl uppi á borðum

Ráðherra kom að eigin ósk í viðtal við fréttastofu RÚV í gær þar sem hann ákvað að greina frá því að hann hefði selt Hauki Harðarsyni íbúð sína vegna fjárhagsörðugleika. Hann vildi segja frá þessu þar sem rétt væri að hafa öll tengsl uppi á borðum.

Síðdegis sama dag kom frétt á Stundinni um viðskipti ráðherra við Hauk. Þar var upplýst að hann hefði selt honum íbúðina eftir að hann settist í stól menntamálaráðherra. Stundin upplýsti einnig að ráðherra hefði ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðilsins um þessi mál.

Fréttastofa freistaði þess í morgun að fá viðtal við Illuga, en án árangurs. Hann er á ráðherrafundi í Kaupmannahöfn.

Algerlega viðeigandi að vinna fyrir Orku

Fréttastofa RÚV spurði Illuga 8. apríl hvort honum þætti viðeigandi að taka þátt í að greiða götu Orku Energy í Kína. Svar Illuga var:

„Það er mikið um það talað að menn vilja að ráðherrar hafi góða reynslu og fjölbreytta til þess að geta sinnt sínum störfum,“ sagði Illugi. „Og á þeim tíma þar sem að ég var utan þings þá auðvitað hlaut ég að afla mér tekna með því að vinna fyrir fyrirtæki. Þetta var eitt þeirra. Mér finnst það algjörlega viðeigandi, og sé ekki með nokkrum hætti að það væri hægt að gera það tortryggilegt - og það væri reyndar óeðlilegt ef ég léti það hafa einhver áhrif á mig að hafa með einhverjum hætti komið að þeirra starfi. Ég er mjög stoltur að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í af því að þetta hefur skilað miklum árangri.“

 

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að Illugi hefði greint frá því í viðtali við fréttastofu RÚV í gær að hann hefði selt Hauki íbúð sína eftir að hann settist í stól menntamálaráðherra. Hið rétta er að Stundin greindi frá tímasetningunni eftir að Illugi upplýsti fréttastofu RÚV um viðskiptin með íbúðina.