Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Þagað um 5 ára ábyrgð

14.02.2010 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Dæmi eru um að sölumenn upplýsi viðskiptavini ekki um 5 ára ábyrgð sem gildir um stærri raftæki og íhluti bíla. Samkvæmt lögum gildir ekki tveggja heldur fimm ára kvörtunarfrestur á vörum sem teljast eiga að hafa verulega lengri endingartíma.

Þegar sölumaður afhendir nótu og ábyrgðarskírteini fylgir gjarnan áminning um að tveggja ára byrgð sé á hlutnum. Það er ekki rétt í öllum tilvikum því ábyrðin getur verið fimm ár samkvæmt lögum um neytendakaup. Þá þarf hluturinn reyndar að teljast eiga að hafa verulega lengri endingartíma en aðrir söluhlutir svo vitnað sé í lögin. Vandamálið er hinsvegar að lögin segja ekki til um hvaða hlutir þetta eru.

Hægt er að bera ágreining um þetta undir kærunefnd þjónustu- og lausafjárkaupa en dómstólar eiga lokaorðið. Formaður nefndarinnar, Friðgeir Björnsson, segir að það væri til bóta ef lögin væru skýrari um hvaða hluti 5 ára ábyrgð gildir, ábyrgð er reyndar kölluð kvörtunarfrestur í lögunum. Friðgeir segir að kærunefndin hafi túlkað lögin þannig að 5 ára kvörtunarfrestur eða ábyrgð gildi um stærri raftæki svo sem þvottavélar, þurrkara, uppþvottavélar, sjónvörp, ísskápa, frystikistur og jafnvel sófasett; einnig tölvur og bíla eða að minnsta kosti ákveðna íhluti þeirra. Þetta er þó ekki algilt. Nefndin gæti komist að því að ódýr, lítill og illa búinn ísskápur eigi ekki að teljast hafa verulega lengri endingartíma og því gildi 5 ára ábyrgðin ekki.

Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri Elko, segir að þar á bæ sé viðskiptavinum ekki sagt frá 5 ára reglunni að fyrra bragði jafnvel þó fólk kaupi raftæki sem fyrirséð er að myndu falla undir regluna. Hinsvegar sé sagt frá 5 ára ábyrgðinni eða kvörtunarfrestinum á heimasíðu Elko. ,,Af hverju hengjum við ekki skilti um þetta um alla búð," spyr Gestur. Elko líti ekki á það sem sitt hlutverk. Hætt sé við því að fólk oftúlki lögin og haldi að það sé 5 ára ábyrgð á öllu. Ekki sé gert ráð fyrir 5 ára ábyrgð í verðlagningu. Eigi eð gera það þurfi að hækka verð.

Hér má lesa nánar um málið í sérstakri fréttaskýringu.