„Það verður aldrei auðvelt að tala um hana“

Mynd: Íris Ann / Íris Ann

„Það verður aldrei auðvelt að tala um hana“

23.01.2020 - 09:37

Höfundar

Yngri systir rithöfundarins og athafnakonunnar Tobbu Marinósdóttur lést langt fyrir aldur fram fyrir þremur árum, aðeins 25 ára að aldri. Hún mátti þola mikið einelti í æsku sem Tobba segir að hafi átt mikinn þátt í að brjóta hana niður. Alla tíð var hún þó hvers manns hugljúfi og mikill prakkari.

Tobba hefur staðið í ströngu síðustu mánuði við að framleiða bráðhollt millimál. Hugmyndina að framleiðslunni fékk hún að nóttu til en yngri dóttir hennar og eiginmanns hennar, Baggalútsins Karls Sigurðssonar, hefur átt afar erfitt með svefn svo mánuðum skiptir. Hjónin hafa skipst á að sitja á litlum kolli í herbergi dóttur sinnar og vaka yfir henni heilu næturnar en í svefnleysinu og endurteknu næturbrölti byrjaði ósofin Tobba að fá ýmsar hugmyndir. Nú hefur hún hrint einni þeirra í framkvæmd með góðum árangri. Hún hóf framleiðslu á náttúrulegu, hollu og heimagerðu granóla sem hefur síðan framleiðsla hófst verið rifið úr hillum Bónusverslana borgarinnar svo Tobba og fjölskylda hennar anna varla eftispurn. Hún var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 þar sem hún sagði frá svefnleysinu, nýja fyrirtækinu, sem nefnist Náttúrulega gott, harminum sem fylgdi systurmissinum og brúðkaupi þeirra Karls á Ítalíu í fyrra. 

Steinunn Ólína skipaði henni að fara með granóla í búðir

Tobbu er sjálfri mjög umhugað um hollustu og hreint mataræði og þegar Regína, eldri dóttir hennar sem skírð er í höfuðið á systur Tobbu, fór að biðja um sykrað morgunkorn eins og hin börnin fengu ákvað hún að búa til hollari valkost fyrir hana. „Ég fór að búa til granóla úr höfrum, hnetum, fræjum og rúsínum og svo notaði ég banana til að sæta. Henni fannst þetta alveg geggjað.“ Granóla Tobbu sló þó alls ekki bara í gegn hjá yngstu kynslóðinni. Þegar Tobba tók upp á því ein jólin að gefa vinum og vandamönnum granóla í krukkum vakti það þvílíka lukku að hún fékk jafnvel tómar krukkur til baka frá fólki sem grátbað um áfyllingu. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona, sem fékk granóla frá henni að gjöf, hvatti hana til að deila því með fleirum. „Hún sagði beint í búðir með þetta,“ rifjar Tobba upp og hlær. 

Tobba leitaði þá til móður sinnar og í sameiningu ákváðu þær að kýla á að hefja framleiðslu á granóla. Þær leigðu aðstöðu hjá Matvælastofnun í hálfan dag en það varð mjög fljótlega ljóst að eftirspurnin var slík að það dugði ekki til. „Bónus tók þetta inn og vildi þúsund poka svo við leigðum fokhelt rými, innréttuðum eldhús, keyptum tæki og tól og fengum heilbrigðisvottun,“ segir Tobba sem hefur síðan ásamt mömmu sinni unnið myrkranna á milli í granólaframleiðslunni og ekkert lát virðist vera á eftirspurninni. 

Drekkir sér í vinnu til að forðast sárar tilfinningar

Því fylgir mikið álag að vera í framleiðslunni en Tobba brennur fyrir því sem hún gerir. Hún segir einnig að það sé henni mikilvægt að halda sér upptekinni. Það hefur hjálpað henni að takast á við erfiða sorg eftir mikið áfall sem hún varð fyrir þegar Regína systir hennar lést fyrir þremur árum. Sjálf á Tobba sex ára dóttur sem skírð er í höfuðið á systur hennar enda voru þær alltaf mjög nánar. Regína var fædd 1992 og það voru átta ár á milli þeirra systra. Tobba á auk þess aðra yngri systur sem fæddist árið 1993. „Það verður aldrei auðvelt að tala um hana en svo er líka svo gott að tala um þá sem manni þykir vænt um. Ég held að hluti af því að drekkja sér í þessari vinnu sé viss forðun. Því meiri tíma sem þú hefur því meira þarftu að takast á við eigin tilfinningar,“ segir hún. 

Með aukaherbergi og gat í hjartanu

Um sorgina segir Tobba: „Ég heyrði viðtal við Nick Cave sem missti son sinn. Hann talar um sorgina sem teygju. Hún gefur stundum eftir og þú kemst langt frá áfallinu og hugsar: Ókei ég ræð við þetta ég er að ná bata. Svo án fyrirvara, og þó það séu liðin nokkur ár, þá er þér kippt til baka og þér finnst þú vera á degi eitt eða jafnvel kominn enn skemra á mínútum.“ Regína var sem fyrr segir aðeins 25 ára þegar hún lést og hefur fjölskyldan, sem alltaf hefur verið mjög náin, síðan leitað enn frekar í styrk hvert annars og samveru. Þau hafa einnig haldið sambandi við þá sem þekktu Regínu og halda minningu hennar lifandi með því að hittast og tala um hana, líka þegar það er næstum óbærilega sárt. „Það er öðruvísi að umgangast fólk sem skilur það sem maður er að ganga í gegnum. Auðvitað fylgjast allir náið með manni en svo dofnar það og lífið heldur áfram en það heldur ekki áfram hjá þeim sem sitja eftir með aukaherbergi og gat í hjartanu.“

Á geðlyfjum eftir erfitt einelti

Systir Tobbu, sem mátti þola hræðilegt einelti sem barn, var á sterkum geðlyfjum. Hún varð í raun bráðkvödd eftir það sem virðist hafa verið lyfjaeitrun. „Þetta var hræðilegt slys. Við erum þakklát fyrir að hún átti ofboðslega gott tímabil. Hún hafði verið rosalega lasin en það gerir þetta líka ennþá súrara,“ segir hún og bætir því við að upphafið á veikindum systur hennar megi án vafa rekja til eineltisins. „Það situr svo fast í manni hvað það er hægt að skemma fólk hratt með ömurlegri hegðun. Mínar tvær litlu stelpur fá til dæmis ekki að gista neins staðar nema hjá bestu vinkonu minni og foreldrum. Maður heldur dauðahaldi í þær og að vissu leyti er það ekki eðlilegt en þú gerir það sem þú getur og reynir að forðast þetta.“

Stórt heilbrigðisvandamál sem er enn til staðar

Systir Tobbu var þrátt fyrir erfið veikindi mikill grínari og hjartagóður einstaklingur sem átti auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á lífinu. Tobba minnist systur sinnar fyrir óþrjótandi gæsku hennar sem vildi allt gera fyrir sína nánustu. „Hún var stórkostleg manneskja, hún systir mín, og dóttir mín er skírð í höfuðið á henni. Hún var alltaf svo góð við okkur öll. Ef hún átti tvö þúsund krónur þá fóru þær alltaf í blómabúðina fyrir mömmu. Hún var alltaf að passa fyrir mig og hvers manns hugljúfi,“ segir hún stolt.

Óþrjótandi elskusemin kom sér þó stundum illa fyrir Regínu sem aldrei sló frá sér þótt aðrir væru vondir við hana. „Ég sló frá mér ef einhver var að stríða mér en hún hafði ekki þann eiginleika hún var of góð í sér. Mér svíður núna það að ég á vinkonu sem á unglingsdóttur sem hefur verið send í þrjá skóla. Það virðist svo langt síðan systir mín var barn að maður hefði haldið að það hefði breyst mikið,“ segir Tobba og er ómyrk í máli þegar hún talar um grasserandi einelti og úrræðaleysi í skólum landsins. „Mér finnst það ætti að vera áætlun, til dæmis að skólinn fái þrjá sénsa og eftir það fari einhver viðbragðsáætlun í gang. Þetta er stórt heilbrigðisvandamál.“

Gerendur gjarnan sjálfir fórnarlömb

Þrátt fyrir að Tobba sé ekki að velta sér upp úr því hverjir gerendur systur hennar voru þá minnist hún þess að hafa þrettán ára gömul slegið börn niður í sjö ára utan undir fyrir að koma illa fram við systur hennar. „Ég átti erfitt með að ganga ekki lengra,“ segir hún. Tobba bendir þó á að oftast sé eitthvað mikið að hjá þeim börnum sem koma svona fram við önnur börn og því sé ofbeldi gagnvart gerendum ekki rétta svarið. „Það er fullt af krökkum sem haga sér illa sem er alveg allt í lagi heima hjá en einhver sem beitir svona stórkostlegu ofbeldi, maður þarf að hugsa, ókei, er ég að fara að beita viðkomandi ofbeldi þegar það er ljóst að það er enn meira ofbeldi heima hjá honum?“

Faldi sig í fullorðinsbleyju og stökk út úr skápnum

Fjölskyldan stendur enn í mikilli þakkarskuld við ýmsa sem voru til staðar fyrir Regínu í lifanda lífi og fer móðir systranna til dæmis enn með jólagjafir til starfsfólksins á geðdeildinni ár hvert. „Við eigum líka í mjög nánu sambandi við sálfræðingana hennar og þetta er fólk sem kemur í kaffi heim til okkar. Hún lifir í hjörtum okkar allra sem þessi stórkostlegi og ótrúlega fyndni og skemmtilegi einstaklingur sem hún var og er í mínu hjarta.“

Í heimsóknum Tobbu til systur sinnar á geðdeild tóku þær upp á ýmsum fíflalátum sem Tobbu eru enn minnisstæð og þær systur hlógu mikið yfir en ekki allir skildu. „Inni á spítala eru oft fullorðinsbleyjur á klósettunum og hún stundaði að setja þær í veskið hjá öllum sem komu í heimsókn til hennar,“ segir Tobba sem hlær við tilhugsunina. „Einhvern tíma þegar við Kalli vorum nýbyrjuð saman sagði hún: Farðu í bleyjuna utan yfir fötin þegar þú kemur heim og feldu þig inni í skáp. Stökktu svo út þegar hann kemur.“

Hugmyndin var sprenghlægileg að mati systranna og Tobba lék þetta eftir þegar nýi kærastinn kom heim. „Kalla fannst þetta ekki góð hugmynd. Hann er enn með ör á sálinni eftir að sjá sambýliskonu sína í fullorðinsbleyju og segir það ekki hafa verið eitthvað sem aðstoðaði hann að hugsa sambandið okkar á næsta level,“ hlær hún.

Það eru sögur eins og þessar sem rifjaðar eru upp þegar fjölskyldan hittist og hittir fólkið sem einnig þekkti Regínu. „Þetta er eitthvað sem maður vill ekki gleyma heldur tala um,“ segir hún en þær systur áttu ýmislegt fleira sameiginlegt en húmorinn. Litla systir Tobbu var til dæmis líka flink í eldhúsinu. „Það fór reyndar allt á hvolf þegar hún bakaði og við vorum ólíkar að því leyti að hún vildi alltaf setja helmingi meiri flórsykur á meðan ég var að reyna að draga úr sykurmagni,“ segir Tobba kímin. „Þegar Kleppur opnaði kaffihús á tímabili bakaði hún og hélt því úti. Hún var algjör meistari.“

Mynd með færslu
 Mynd: Tobba Marinós - Einkasafn
Hjónin giftu sig á Ítalíu á síðasta ári

Dásamlegar minningar þrátt fyrir brösuglegan undirbúning

Þegar Regína lést hafði Tobba verið að skipuleggja ferð til Ítalíu með tilvonandi eiginmanni sínum og föður. Ferðina fóru þau ekki í á sínum tíma en þegar Tobba og Kalli ákváðu loks að gifta sig voru þau plön endurvakin og fór fjölskyldan, ásamt allra nánustu vinum saman, til Ítalíu. Þar leigðu þau stórt hús, héldu sundlaugapartý, pizzapartý og buðu gestum í vínsmökkun og eiga þau hjónin dásamlegar minningar þó að það sé sitthvað sem þau myndu gera öðruvísi varðandi skipulag brúðkaupsins í dag.

„Við létum til dæmis gera rosa stóran blómaboga til að mynda fólk undir og þetta kostaði fullt af peningum. Svo erum við að skera kökuna og taka myndir, klukkan kannski orðin tíu um kvöld og á nokkrum myndum sést blómakonan í baksýn taka niður bogann sem ég var búin að borga hundrað og eitthvað þúsund kall fyrir og hlaut að eiga. Þá var hún bara á leið heim að ganga frá svo að á brúðarmyndunum okkar er einhver kerling í baksýn að taka niður rósir,“ segir Tobba og hlær.

Matarvenjur Íslendinganna fannst Ítölunum einnig óskiljanlegar og til dæmis þótti þeim óttækt að það ætti að borða salatið og pastað saman í brúðkaupinu. Hjónin ráku sig einnig á það þegar út var komið að Ítalirnir vildu rukka þau meira fyrir að greiða með greiðslukorti en reiðufé svo þau fengu vini og vandamenn til að taka með sér ógrynni af seðlum í ferðatöskunum sínum sem vakti einhvern kvíða á meðal nokkurra brúðkaupsgesta meðan á ferðalaginu stóð. Allt gekk þó upp að lokum og segir Tobba að hjónin muni hér eftir skála fyrir dásamlegum brúðkaupsdegi ár hvert. „Þetta var stórkostlegt en svo líður manni eins og þetta hafi verið korter. Mig langar að spóla til baka og ég skil ekki hvert þetta kvöld fór, ég skoða myndir og er bara: Gerðist þetta?“ segir hún dreymin að lokum. 

Rætt var við Tobbu Marinós í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Eins og þverskorin ýsa eftir krabbameinsmeðferð

Leiklist

Tekur ekki persónurnar með sér á koddann

Kvikmyndir

„Við töluðum ekki um að við værum mæðgin“