Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það sem við erum að gera gengur vel“

03.08.2019 - 02:58
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Um fimmtíu grindhvalir strönduðu í fjörunni við Útskálakirkju í Garði í kvöld. Ingólfur Einar Sigurjónsson, formaður björgunarsveitarinnar Ægis segir að björgunarsveitarfólk verði í nótt á vöktum til að halda hvölunum blautum og noti til þess vatnsdælur og fötur.

Markmiðið sé að dýrin þrauki þangað til í fyrramálið þegar flæðir að, milli sex og sjö. „Það sem við erum að gera gengur vel,“ segir Ingólfur. Ekki er vitað nákvæmlega hversu margir hvalirnir eru en þeir eru taldir vera um fimmtíu. Björgunarsveitir njóta aðstoðar slökkviliðs frá Suðurnesjum auk lögreglu.

Ingólfur segir að mikilvægt sé fyrir fólk sem fór niður í fjöru fyrr í kvöld og komst í návígi við hvalina að vita að það er sýkingarhætta af þeim, vírus sem getur borist í menn. Ef fólk finnur fyrir roða í augum eða kláða þarf að leita til bráðamóttöku.

Engar frekari aðgerðir fyrr en flæðir að

Dýralæknar eru komnir á staðinn, sem og fulltrúar Almannavarna og fulltrúar þeirra stofnana sem þurfa að taka ákvarðanir í framhaldinu, segir Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Hann segir engan að fara að hreyfa dýrinn að ráði, ekki þá vegalengd sem er að sjónum eins og staðan er núna. Ekki verði gripið til frekari aðgerða fyrr en flæðir að.

„Þetta er staðan og verður það fram þá að flóði. Þetta er samstarf allra aðila, lögreglunnar á svæðinu og Almannavarna sem munu ráða ráðum sínum og halda þessu ferli gangandi,“ segir Davíð.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV