Það sem sjónvarpsþættirnir Sex Education kenndu okkur

Mynd með færslu
 Mynd:

Það sem sjónvarpsþættirnir Sex Education kenndu okkur

16.01.2020 - 17:00
Bresku gamandrama þættirnir Sex Education voru frumsýndir á Netflix í janúar í fyrra og slógu í gegn. Á fyrstu fjórum vikunum sem þeir voru aðgengilegir horfðu 40 milljónir heimila á þættina og vinsældirnar leyndu sér ekki. Samningur þeirra var því endurnýjaður og önnur sería er nú væntanleg 17. janúar.

Þættirnir gerast í Moordale framhaldsskólanum þar sem hinn 16 ára Otis gengur í skóla ásamt besta vini sínum Eric. Otis er frekar venjulegur vandræðalegur unglingur fyrir utan það að hann er óvenju fróður um kynlíf, enda er móðir hans kynlífssérfræðingur. 

Þrátt fyrir að hafa sjaldnast flaggað þessari þekkingu sinni ákveður Otis að slá til þegar ein af „svölustu“ stelpum skólans, Maeve, leggur til að þau stofni saman kynlífsráðgjafaþjónustu til að græða pening. Í fyrstu þáttaröðinni hjálpar Otis skólafélögum sínum að glíma við hinar ýmsu hliðar kynlífs og kynþroska, allt frá risvandamálum yfir í sambandserjur. 

Þættirnir hafa fengið góða dóma víða og þykja hafa tekist vel á við heit og viðkvæm umræðuefni eins og fóstureyðingar, hefndarklám, drusluskömm og það að koma út úr skápnum. Þar að auki hefur þeim verið hrósað fyrir fjölbreytta persónusköpun bæði þegar litið er til þjóðernis, húðlitar, kynhneigðar og kynvitundar. Þeir eru nefnilega ekki bara skemmtilegir, heldur líka fræðandi og til að hita upp fyrir aðra seríu höfum við tekið saman nokkra góða hluti sem við lærðum í þeirri fyrstu. Við vörum við spilliefni. 

1. Kynlíf á ekki bara að vera gott fyrir annan aðilann
Ein stærsta uppgötvun Aimee Gibbs í þáttunum er að kynlíf eigi líka að geta verið gott fyrir hana, ekki bara fyrir Adam, kærastann hennar. Það er nú bara nokkuð til í því hjá henni verður að segjast og eitthvað sem vert er að hafa í huga.

2. Það er engin pressa
Það er augljós kynlífspressa á nemendum Moordale í þáttunum. Lily getur ekki hugsað um annað en að hún verði að prófa það og eitt það fyrsta sem Eric bendir Otis á er að allir hafi líklegast stundað kynlíf yfir sumarið nema hann. Það kemur hins vegar í ljós að ótrúlegt en satt þá er kynlíf ekki svarið við öllu og ekkert að því að bíða ef maður vill það frekar.

3. Að taka þrjár Viagra er aldrei góð hugmynd
Þetta segir sig mögulega sjálft þar sem það að taka lyf gegn læknisráði eða í of miklu magni er sjaldnast góð hugmynd. Tilraun Adams til að eiga við risvandamálið sitt með þremur Viagra endaði vægast sagt illa en eftir spjall við Otis áttaði hann sig á því að mögulega var eitthvað dýpra að valda því að hann átti erfitt með að fá það. 

4. Það er ekkert sem er „venjulegt“
Stór brjóst, lítil brjóst, beint typpi, bogið typpi, að laðast að stelpum, að laðast að strákum, að laðast að öðrum kynjum, hvað er venjulegt? Einhverjar persónur þáttanna vilja ekkert heitar en að vera „venjuleg“, en málið er að það er ekkert sem er venjulegt. Fólk er eins mismunandi og það er margt og kynlífið sem það stundar er þar engin undantekning. Slagorð næstu þáttaraðar er einmitt "Subbulegt er venjulegt" af því það er jú það sem kynþroskinn og kynlíf í heild sinni getur verið...subbulegt.

5. Að tala við foreldra þína um kynlíf verður alltaf hræðilegt (eða svona frekar hræðilegt)
Þó svo að það séu án efa foreldrar þarna úti sem auðvelt er að eiga svona samræður við þá hljóta flestir að geta tekið undir það að þær eru sjaldnast þægilegar (hvað þá ef móðir þín er kynlífssérfræðingur eins og mamma Otisar). Það þýðir samt ekki að maður eigi ekki að tala um kynlíf við neinn, Sex education sýnir okkur nefnilega að það er akkúrat þöggunin sem getur gert okkur erfitt fyrir og miklað fyrir okkur hluti sem eru í raun ósköp eðlilegir.

Það verður spennandi að sjá hvaða visku þáttaröð tvö mun færa okkur en hún verður aðgengileg á Netflix föstudaginn 17. janúar.