Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það sem fer upp fer yfirleitt niður aftur“

31.07.2019 - 18:53
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Íslenska krónan hefur síðastliðnar tvær vikur styrkst nokkuð hratt gagnvart helstu gjaldmiðlum og forsvarsmenn verslana hafa lækkað verð. Hagfræðingur telur gengið sjálfbært eins og er en útilokar ekki frekari sveiflur. Formaður Neytendasamtakanna segir þetta hefðbundna sumarsveiflu, það sem fari upp, fari yfirleitt niður aftur.

 

Flókið tilfinningalíf

Sú uppsveifla sem krónan er nú stödd í hófst um miðjan júlí og nemur styrkingin um fimm prósentum gagnvart helstu gjaldmiðlum. Ef horft er til síðustu tveggja vikna sést að krónan hefur styrkst mest gagnvart sterlingspundi, um rúm 6% og er talið að þar hafi líkur á samningslausri útgöngu Breta úr Evrópusambandinu nokkuð að segja. „Krónan lifir auðvitað mjög flóknu tilfinningalífi eins og landsmenn þekkja og margt sem spilar inn í,“ segir Halldór Kári Sigurðarson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka.  

Hann nefnir að lífeyrissjóðirnir hafi í byrjun árs keypt mikið af gjaldeyri sem þeir geti nú nýtt í fjárfestingar erlendis án þess að veikja krónuna. Þá dvelji ferðamenn að jafnaði lengur hér en í fyrra og eyði meiru. Halldór telur styrkinguna hafa áhrif á verðbólguvæntingar og opna á stýrivaxtalækkanir, „ þótt við eigum eftir að sjá hverjar áherslur nýs seðlabankastjóra verða.“

Handviss um að neytendur græði

En græða neytendur eitthvað? Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka verslunar og þjónustu og forstjóri Olís telur það tryggt. „Ég er handviss um það að íslensk verslun láti sína viðskiptavini njóta þess þegar gengið styrkist með þessum hætti.“

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festa sem rekur Krónuna og N1, sagði í hádegisfréttum að styrkingin væri þegar farin að hafa áhrif á verðlag á matvöru og eldsneyti. Það eina sem geti haft áhrif, að sögn Eggerts, er ef það er hækkun frá birgja erlendis eða hækkun á flutningskostnaði til landsins. Jón Ólafur segir Olís hafa lækkað um þrjár krónur í þessum mánuði, hækkun á eldsneyti erlendis vinni á móti en vonandi verði innistæða fyrir meiri lækkun. Neytendasamtökin hyggjast halda versluninni við efnið.

Sveiflur skapi óvissu fyrir neytendur

Þó að krónan hafi styrkst nokkuð síðustu vikur er hún mun veikari en á sama tíma í fyrra. Og það er óljóst hvort styrkingin er komin til að vera. „Það má segja að til skamms tíma séu þetta góðar fréttir en líklega er þetta árstíðabundin sveifla og það sem fer upp fer niður á endanum,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Miklar sveiflur skapi óvissu fyrir neytendur, geri alla áætlanagerð erfiða. 

Sjálfbært gengi 

Nýlega styrktist krónan um þrjú prósent á einum degi, það segir Halldór Kári hjá Arion Banka óæskilegt og til marks um að markaðurinn sé ekki sérstaklega skilvirkur. Jón Ólafur, formaður SVÞ, vonar að krónan finni jafnvægi, hún hafi verið of veik fyrir innlendan markað. Halldór telur að það væri farsælt, héldi hún sig á svipuðum slóðum og nú. „Til lengri tíma myndi ég halda að þetta væri nokkurn veginn sjálfbært gengi.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV