„Það rennur alveg af mér, sko“

Mynd: RÚV / RÚV

„Það rennur alveg af mér, sko“

21.01.2020 - 16:13

Höfundar

„Ég á alveg góðan slatta, myndi giska á svona 12,“ segir rithöfundurinn Þórdís Gísladóttir þegar hún er spurð að því hvað hún eigi marga múmínálfabolla. Þórdís hefur undanfarin ár þýtt bækurnar um múmínálfana og gaf fyrir jól út ljóðabókina Mislæg gatnamót.

„Núna er ég að þýða bók sem heitir Álaguðspjallið, alþýðlegt fræðrit um álinn, og enduminningabók mannsins sem skrifar hana,“ segir Þórdís en hún og uppistandarinn Jakob Birgisson voru gestir Bjargar Magnúsdóttur og Gísla Marteins í Morgunkaffinu. „Svo er ég að þýða múmínálfabók sem er ekki múmínálfabók. Hún heitir Seint í nóvember og fjallar um verurnar í Múmíndal sem koma í Múmínhúsið og þar er enginn múmínálfur.“

Það er mikil fjölbreytni í verkefnum Þórdísar sem þýðir jöfnum höndum skáldsögur, barna- og fræðibækur. „Núna þýði ég eiginlega bara það sem ég nenni að þýða og má vera að,“ segir Þórdís sem þýðir mest úr sænsku. Fyrsta bók Þórdísar var ljóðabókin Leyndarmál annarra sem kom út 2010 en síðan hefur hún skrifað barnabækur um Dodda og Randalín og munda, fleiri ljóðabækur og eina skáldsögu. Bæði Þórdís og Jakob vinna mest við að skrifa sem í raun er hægt að gera hvar sem er, en leigja bæði skrifstofu. Þórdís segir mikilvægt að eiga annað athvarf til að skrifa í. „Ég er heima ef ég vil vera heima. En svo er líka gott að fara eitthvað og hitta fólk, bara labba eitthvað, svo maður sé ekki bara heima á hlýrabolnum allan daginn.“

Þórdís vinnur nú að tveimur verkefnum sem hún má ekki ljóstra upp um, en hún fékk úthlutað listamannalaunum í níu mánuði svo hún getur bráðlega einbeitt sér að eigin verkum. Hún segist ekki taka hina árlegu umræðu um listamannalaun sem blússar upp í athugasemdakerfunum nærri sér. „Þetta er svo endurtekið efni. Sonur minn er forritari og segir þetta sé svo fyrirsjáanlegt að það væri ekkert mál að búa til þjark sem býr til svona athugasemdir sjálfvirkt.“ Þórdís upplifir þó pressu að standa sig þegar hún fær úthlutað ritlaunum, sem eru þó aðeins rúmlega 400.000 krónur í verktakalaun. „Þetta eru hámark 280 þúsund eftir að búið er að borga skatt og skyldulífeyrissparnað.“ 

Jakob Birgisson er einnig mjög fylgjandi listamannalaunum. „Gamla góða klisjan sem er samt alveg rétt, þetta er lítið hagkerfi og eina leiðin til að halda uppi menningu er með styrkjum, rétt eins og með margt annað.“ Jakob er með uppistand á fjölunum í Tjarnarbíói ásamt Jóhanni Alfreð sem heitir Allt í gangi auk þess að skemmta víða á þorrablótum, árshátíðum og öðrum mannamótum. „Ég  á við óreglulegan svefn að etja og drekk ekki mikið af grænum djúsum. En ég reyni að ganga mjög mikið, það er eina líkamsræktin mín.“

Þáttastjórnandi minnist á að oft sé áfengis getið í ljóðum Þórdísar og henni finnst augljóslega að sér vegið. „Á ég að blása í mæli eða? Nú hef ég ekki drukkið áfengi í fjóra daga, ég skil ekkert hvaða áburður þetta er,“ segir Þórdís hlæjandi. „En áfengi er náttúrulega dálítið dýrkað almennt. Mér finnst áfengi mjög gott og hef drukkið talsvert af því yfir ævina. En það rennur alveg af mér sko,“ segir hún glettin og áréttar líka á að ljóðmælandi sé ekki endilega alltaf hún sjálf. Jakob segist vera kallaður pjúrítani af föður sínum vegna þess hvernig hann talar um áfengi. „Ég er eins og gamall prestur með þetta. Þoli ekki áfengi og áfengismenningu. En síðan er ég alltaf til í að fá mér af og til. En ég tala eins og bindindismaður.“

Björg Magnúsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson ræddu við Þórdísi Gísladóttur og Jakob Birgisson í Morgunkaffinu. Hægt er að hlusta á þáttinn og viðtalið í heild sinni í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Kaldhæðinn og berskjaldaður lífskúnstner

Bókmenntir

Heimspekin og kjarnorkuváin í Múmíndal

Bókmenntir

Horfið ekki í ljósið - Þórdís Gísladóttir

Bókmenntir

Dauði, sorg og týpuálag samtímans