Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það má sussa á mig hundrað sinnum í viðbót“

19.05.2019 - 11:20
Mynd: RÚV / RÚV
Rætt var um niðurstöðu siðanefndar Alþingis í máli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur í Silfrinu í dag sem hún hefur fordæmt harðlega. Nefndin komst að því að Þórhildur Sunna hefði brotið siðareglur með ummælum sínum um að rökstuddur grunur væri á því að Ásmundur Friðriksson hafi brotið reglur um aksturgreiðslur.

Þórhildur Sunna fór að eigin sögn gaumgæfilega yfir niðurstöðuna og komst að því að „ekkert siðferðislega rangt eða lagalega við það sem ég sagði, þvert á móti.“ Henni hafi borið lagaleg og siðferðisleg skylda til að benda á að ástæða væri til þess að rannsaka „grunsamlegar akstursgreiðslur Ásmundar Friðrikssonar og kalla eftir því.“ Hún hafi farið eftir sinni sannfæringu.

Þórhildur Sunna segir að fullyrðingar sínar um rökstuddan grun á að hann hafi dregið sér fé væru á rökum reistar þá og þær væru það enn. Siðanefndin hafi gefið sér að hún hafi aðgang að trúnaðargögnum um málið, „ég í krafti sé að stöðu minnar sé að byggja á einhverjum leynilegum upplýsingum þegar ég segi þetta“.

Segir Ásmund hafa játað

Hún segir Ásmund sjálfan viðurkennt eftir viðtal í Kastljósi 14. febrúar í fyrra að hafa tekið við aksturgreiðslum fyrir prófkjörsbaráttu sína og fengið endurgreiddar.

Auk þess hafi hann neitað í Kastljósi að hafa tekið bílaleigubíl eins og Alþingi bað hann um, í samræmi við reglur forsætisnefndar um akstursgreiðslur, vegna þess að „honum líkaði ekki bílarnir sem voru í boði og bauð þinginu að leigja sinn eigin bíl sem vakti ekki mikla lukku.“ Ásmundur hafi enn fremur neitað að hafa þegið greiðslur fyrir upptökur á þáttum á vegum ÍNN.

„Þetta allt lá fyrir. Þetta skoðar siðanefndin ekki, heldur gefur sér án rökstuðnings að ég sé að vísa í einhver leynigögn og ég sé að tala með einhvers konar æsingi þegar ég segi að það sé rökstuddur grunur.“

Þórhildur Sunna segir að hún hafi ekki verið ein um að tala með þessum hætti og myndi orða þetta eins í dag. „Ég stend við þessi orð, ég sé ekki eftir þeim. Það má sussa á mig hundrað sinnum í viðbót.“ Hennar hlutverk, sem kjörins fulltrúa, sé að benda á það sem miður fer og það sem ætti að rannsaka.

„Ég er sett í þá stöðu núna að verja rétt lýðræðislega kjörinna fulltrúa til þess að taka þátt í lýðræðislegri umræðu, að verja rétt þingkvenna að taka þátt í lýðræðislegri umræðu án þess að vera sökuð um æsing af siðanefnd.“ Áfram sé eðlilegt að kanna grunsamlegar greiðslur til kjörinna fulltrúa.

„Dómur hennar er fallinn“

Páll Magnússon hefur gagnrýnt framgöngu Pírata í málinu. „Þetta var ekki beiðni um rannsókn, þetta var staðhæfing um þjófnað. Hún sagði að Ásmundur Friðriksson væri þjófur.“ Þórhildur Sunna hafnar þeirri fullyrðingu. „Þú sagðir að það væri rökstuddur grunur um það,“ segir Páll.

„Ef þessu væri nú öfugt farið, ef það hefði verið Ásmundur Friðriksson sem hefði sagt að Sunna lægi undir rökstuddum grun um fjárdrátt út af tíðum ferðum til útlanda eða eitthvað annað. Sunna hefði kært það til siðanefndar, siðanefnd hefði komist að niðurstöðu um málið og sagt að þetta væri siðferðislega ámælisvert sem Ásmundur hefði sagt um hana. Ásmundur hefði síðan komið og sagt að það væri ekkert að marka þennan úrskurð siðanefndar, þetta væri allt saman á misskilningi byggt, endurtæki fyrri fullyrðingar og svoleiðis, þá er ég næstum því viss um það að Sunna hefði setið hér nánast í andnauð af hneykslun yfir því að Ásmundur myndi ekki bara sætta sig við úrskurð siðanefndarinnar, taka afleiðingum gjörða sinna, biðjast afsökunar í stað þess að vera flytja málið einn ganginn enn hér. Siðanefnd hefur komist að niðurstöðu. Dómur hennar er fallinn.“

Björn Leví átti líka að áfellisdóm

Málið fer nú fyrir forsætisnefnd Alþingis. Páll segist ekki sjá að siðanefnd, þó að hann sé ekki sammála umbúnaði hennar, gæti komist að „annarri niðurstöðu varðandi þessar þjófkenningar.“

Það vekur furðu hans að Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata skyldi ekki fá sama áfellisdóm fyrir ummæli hans um mál Ásmundar, líkt og Þórhildur Sunna fékk. „Úrskurður siðanefndar er fallinn og þú ættir bara að una honum,“ segir Páll við þingkonu Pírata.

Þórhildur Sunna segir áhersluna á orðalagið rökstuddur grunur vera of mikla en það felur í sér að hennar sögn að til séu upplýsingar sem vekja grunsemdir um að ákveðið atvik eða athæfi hafi átt sér stað. „Í því getur líka falist að grunur að refsivert brot hafi átt sér stað. Það er ekki það sama að viðkomandi hafi framið brotið.“

Full ástæða var til þess á sínum tíma og raunar enn, til að rannsaka hvort brot hafi verið framin, „þegar liggur fyrir að Ásmundur neitar fyrst fyrir það en viðurkennir svo að hafa þegið greiðslur, endurgreiðslur frá skrifstofu Alþingis fyrir ferðir sem tengdust ekki hans starfi. Það er skýrt, það er ljóst þarna.“

Skorar á Þórhildi Sunnu að leggja fram kæru

Þórhildur Sunna segir siðanefnd ekki fara með rannsóknarvald þegar kemur að málinu og spyr hann á mót hvers vegna hún hafi ekki kært þetta til lögreglu grunaði hana að um brot á hegningarlögum væri að ræða.

„Það er góð spurning Páll,“ og skorar hann á Þórhildi Sunnu að grípa til þess ráðs. Slíkt komi til greina af hennar hálfu en hún viti ekki hvort það sé hennar hlutverk, vegna þess að hún tilheyri löggjafarvaldinu. Þórhildur Sunna segir æðstu valdahafa ekki sæta ábyrgð og séu ekki rannsakaðir fyrir hluti sem venjulega væru tilefni til rannsóknar. 

„Páll segir að ég hafi þjófkennd Ásmund. Það er ekki rétt. Siðanefndinni er að sjálfsögðu ákveðin vorkunn, hún fær þau skilaboð frá forsætisnefnd að hún megi ekki meta sannleiksgildi ummælanna og hún eigi ekki þannig sé að gera mikið með þetta tjáningarfrelsi sem við höfum.“

„Á hann að vera ein alsherjar málsvörn fyrir Sunnu þessi þáttur,“ spyr Páll á móti. „Það er fallinn úrskurður siðanefndar.“ Þórhildur Sunna neitar því og segir að þetta sé álit en ekki úrskurður.

Hann segir að betra sé að bíða úrskurðar forsætisnefndar, málflutningur í málinu sé búinn. Lögreglan sé eðlilegast vettvangurinn vegna ásakana hennar um meintan fjárdrátt Ásmundar.

Sagði Ásmund ekki vera sekan

„Það sem Sunnar er að gera hér er að saka Ásmund um brot á hegningarlögum. Það er lögreglumál,“ segir Páll. Forsætisnefnd Alþingis hafi skoðað ásakanir á hendur Ásmundi um að hafa þegið aksturgreiðslur fyrir akstur í prófkjörsbaráttu og við þáttagerð um sjálfan sig og „vísað klögumálum Sunnu frá.“

„Eitt er að segja að akstur Ásmundar sé ámælisverður og úr hófi. Annað er að segja að hann sé þjófur. Á þessu tvennu er reginmunur. Það er það sem siðanefnd er að taka afstöðu til.“

Þessu hafnar Þórhildur Sunna og segir nefndina ekki hafa tekið afstöðu til ummælanna í heild. Þórhildur Sunna hafi ekki sagt Ásmund sekan, það væri hlutverk dómstóla, einungis kallað eftir rannsókn. Hundsuð hafi verið ummæli hennar þar sem ekki komu fram neinar ásakanir um brot.

„Þetta er fullkomlega eðlilegt málfar, hvort sem það er í faglegum skilningi eða venjulegum skilningi. Því miður hefur siðanefndin rangt fyrir sér. Ég ætla ekki að ræna fólk sínum venjulega málskilningi og það megi ekki tala um að það sé rökstuddur grunur á því að það séu ekki áþreifanlegar upplýsingar fyrir hátterni sem gefi tilefni til rannsóknar án þess að vera sussaður,“ segir Þórhildur Sunna.

Siðanefnd verður að vera sjálfstæð

Líneik Anna þingmaður Framsóknarflokks segir tilefni til að skoða umbúnað siðanefndar Alþingis. Framsóknarkonur hafa ályktað um málið og fordæmt úrskurð nefndarinnar í máli Þórhildar Sunnu. „Þar koma fram mikilvæg skilaboð til þingmanna um hvernig þessi úrskurður blasi við, ekki síst konum.“

Jón Steindór þingmaður Viðreisnar segir mikilvægt að hafa siðareglur Alþingismanna og siðanefnd. Engu að síður segir hann að þinginu hafi mistekist að setja umgjörð um slíkt, sem til sé þess fallin að vekja traust.

„Ég held að svona siðanefnd verði að vera algjörlega sjálfstæð og hafa sjálfstætt mat um það hvaða mál heyra undir hana og síðan úrskurði hún en að forsætisnefndin sé ekki sú sem ákveður hvort málum sé vísað til hennar og taki svo eiginlega ákvörðun um hvort á að taka mark á siðanefndinni.“