Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það hellast yfir mann margar tilfinningar“

24.01.2020 - 19:44
Mynd: .. / ..
Lögreglan varðveitir bein úr tveimur mönnum. Með hjálp DNA-greiningar hefur tekist að bera kennsl á hluta úr höfuðkúpu sem fannst við ósa Ölfusár árið 1994. Hún tilheyrði Jóni Ólafssyni sem talinn er hafa fallið í Sogið á aðfangadag 1987. Ekki hefur tekist að upplýsa hver hinn maðurinn sem lögregla varðveitir bein úr var. Birgittu Jónsdóttur, dóttur Jóns Ólafssonar, er létt. „Maður fær aldrei alvöru frið fyrr en að maður fær algjöra staðfestingu, alveg sama hvað tíminn líður,“ segir hún.
Mynd með færslu
 Mynd: Íslensk mannshvörf - Facebook
Höfuðbeinin sem fundust tilheyrðu Jóni Ólafssyni.

Lögreglan leitar til ættingja horfinna

Lögreglan ætlar á næstunni að óska eftir DNA-sýnum úr ættingjum þeirra sem eru á svokallaðri horfinnamannaskrá. Skrá lögreglu yfir óupplýst mannshvörf. Sýnin eiga að auðvelda lögreglu að bera kennsl á bein sem kunna að finnast í framtíðinni. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, hratt verkefninu af stað en að því standa auk lögregluumdæma landsins, kennslanefnd ríkislögreglustjóra og tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

„Það hellast yfir mann margar tilfinningar“

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Birgittu er létt.

Jón Ólafsson var 47 ára þegar hann lést. Afkomendur hans fá jarðneskar leifar hans í hendurnar á næstu dögum. Birgitta Jónsdóttir, dóttir Jóns og fyrrverandi Alþingismaður, segir ótrúlega gott að loka þessum kafla og fá pabba sinn heim. Hún vonar að nýjar verklagsreglur lögreglu verði til þess að aðrir þurfi ekki að bíða jafn lengi eftir staðfestingu og hún og systkini hennar. Hún segir það mikinn létti að geta jarðað föður sinn. „Auðvitað er það þannig að sorg og missir er ekki eitthvað sem er í einhverri tímalínu þannig að það hellist líka yfir mann rosalega mikið af tilfinningum. Þetta er tilfinningarússíbani en það er samt svo rosalega gott að fá endanlega staðfestingu og fá tækifæri til þess að fara í þennan ritúal sem er jarðarför, að loka þessum kafla og fá pabba einhvern veginn heim, það er ofsalega gott.“

Birgitta hefur mikla samúð með aðstandendum fólks sem hefur horfið og skorar á heilbrigðisyfirvöld að hafa frumkvæði að því að veita þeim áfallahjálp. 

Hefði viljað að staðfestingin kæmi fyrr

Birgitta er mjög ánægð með verklag Odds Ólafssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi, sem hélt utan um málið. „Ég vil koma á framfæri einlægu þakklæti okkar systkina gagnvart verklagi Odds í kringum þetta ferli, ekki bara að hann sé að safna lífssýnum til að hægt sé að bera kennsl á bein sem eru einhvers staðar í hillum yfirvalda heldur bara allt þetta ferlið sem var svo ótrúlega nærgætið, hann hélt okkur mjög vel upplýstum og það er bara mjög mikilvægt, þegar fólk gerir vinnuna sína extra vel og stígur þessi auka skref.“

Hún vonast til þess að málið verði til þess að farið verði að safna lífssýnum í öllum lögregluumdæmum. „Þannig að fleiri fá að gera það sem ég og okkar fjölskylda fáum að gera núna.“

Það liðu 25 ár frá því bein Jóns fundust og þar til niðurstaðan lág fyrir. Birgittu finnst það langur tími. „Mér finnst það, út af því að það er dálítið langt síðan það var komin tækni sem hefði getað fengið svona staðfestingu á því hver þetta væri. En betra er seint en aldrei og vonandi verður þetta til þess að enginn annar þurfi að bíða svona lengi eins og við. Aðalatriðið er bara að fá að klára og taka þetta inn því maður fær aldrei alvöru frið fyrr en að maður fær algjöra staðfestingu, alveg sama hvað tíminn líður. 

DNA-rannsóknir gefast vel

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Oddur Árnason

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar bein sem finnast hér á landi. Stundum reynast beinin mörg hundruð ára gömul, þá er haft samband við Minjastofnun. Í öðrum tilvikum eru beinin yngri og geta þá tengst óupplýstum mannshvörfum. DNA-rannsóknir hafa gefist vel við að bera kennsl á beinin en til þess að geta staðfest að þau hafi tilheyrt einhverjum ákveðnum þarf að finna samsvörun við erfðaefni skyldmenna. 

Yfirlögregluþjónn heyrði fyrst af málinu í fyrra

Höfuðkúpan, sem nú er komið í ljós að tilheyrði Jóni Ólafssyni, var fyrst rannsökuð eftir að hún fannst, fyrir 25 árum, með aðferðum þess tíma. Þær greiningar skiluðu ekki niðurstöðu. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, heyrði fyrst af málinu fyrir tæpu ári á fundi kennslanefndar Ríkislögreglustjóra. Hann segir að á fundinum hafi verið tekin ákvörðun um að taka málið upp aftur. „Við vorum sammála um að nú væri til staðar sú þekking og kunnátta sem þyrfti til að upplýsa þetta þó hún hafi kannski ekki verið fyrir hendi þegar málið kom upp. Það var ákveðið að ýta þessu aftur af stað snarlega og þannig fór boltinn að rúlla.“

Beinin voru send til aldursgreiningar í Háskóla Íslands, sú greining leiddi í ljós að líklega væru þau yngri en fimmtíu ára. Í ljósi þess var ráðist í DNA-greiningu. 

Hafa safnað sýnum vegna nýlegra mannshvarfa

Fyrir nokkrum árum tók lögreglan upp það verklag að safna sýnum úr nánustu ættingjum fólks, sem hverfur sporlaust, í sérstakan gagnabanka. „ Hér á suðurlandinu hefur þetta verið gert, sennilega síðustu tíu árin, alveg svikalaust,“ segir Oddur. Þessi sýni er  hægt að bera saman við DNA-sýni úr líkamsleifum sem kunna að finnast í náinni eða fjarlægri framtíð.

Söfnuðu sýnum úr aðstandendum nokkurra manna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Ölfusá.

 

Það eru 32 ár liðin frá því Jón Ólafsson hvarf og því voru ekki til DNA-sýni úr ættingjum hans. Lögreglan hafði samband við nána ættingja Jóns í tengslum við rannsóknina á höfuðkúpunni og bað þau að gefa lífsýni. Aðstandendur annarra sem horfið hafa á þessum slóðum voru líka beðnir að gefa sýni. „Beinið finnst náttúrulega í Ölfusánni og við vitum hverjir hafa farið þar niður á undanförnum árum. Þess vegna er kannski eðlilegt að leita í DNA-snið þeirra sem enn vantar þaðan. Fjölskylda Jóns Ólafssonar var ekki sú eina sem við bárum saman við þetta DNA, það voru fleiri sem komu til greina.“

Sýnin frá aðstandendum og sýni úr höfuðkúpunni voru send til Svíþjóðar á rannsóknarstofu sem sér um alla DNA-greiningu fyrir íslensku lögregluna. Sýni úr ættingjunum voru borin saman við DNA-sýni úr höfuðkúpunni. Það fannst samsvörun. Lögreglan á Suðurlandi greindi opinberlega frá niðurstöðunni í gær og staðfesti að beinin hefðu tilheyrt Jóni Ólafssyni. 

Sjá einnig: Kennsl borin á mann sem hvarf 1987

Vilja safna miklum fjölda sýna

Nú stendur til að safna tugum sýna frá ættingjum fólks á horfinnamannalistanum til að auka líkur á því að hægt verði að bera kennsl á bein sem finnast í framtíðinni. Í gagnagrunni kennslanefndar eru 210 mál sem hafa verið skráð sem óupplýst mannshvörf. Einnig eru í sömu skrá tíu Íslendingar sem hafa týnst erlendis og eru ófundnir. Stór hluti málanna tengist sjóslysum. Elsta málið í skránni er frá árinu 1930 en um helmingur málanna er frá síðustu fjórum áratugum. 

Ekki er komið á hreint hvað það verður óskað eftir mörgum sýnum frá ættingjum en líklega eiga beiðnirnar eftir að skipta tugum. Runólfur Þórhallsson, formaður kennslanefndar og lögreglufultrúi hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, segir að það þurfi að greina í hve mörgum málanna sé hægt að nálgast slík sýni. Þessi greiningarvinna sé hafin. Runólfur getur ekki gefið upp ákveðna tölu en segir koma til greina að óska eftir sýnum tengdum 30 til 150 málum. Engum er skylt að gefa sýni. 

Lögreglan á Suðurlandi komin af stað

Vinnan er þegar farin af stað í umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi. Oddur segir að unnið sé að því að afla DNA-sýna úr aðstandendum allra þeirra sem enn eru ófundnir í umdæminu. Sú vinna var raunar hafin áður en höfuðkúpan sem nú er komið í ljós að tilheyrði Jóni Ólafssyni var tekin aftur til rannsóknar. 

Aldur beina ræður því hvort þau eru greind

Oddur segir að aldur beina sem finnast ráði því hvort þau eru send í DNA-rannsókn, ekki hafi verið dregin formleg tímamörk en líklega yrði ekki ráðist í rannsóknir á beinum sem reynast vera frá fyrri hluta síðustu aldar eða eldri. Oddur bendir á að ferjustaðir hafi verið bæði við Laugardæli og Arnarbæli í Ölfusi, þar gætu fundist nokkur hundruð ára gömul bein. „Við myndum ekki fara að elta það,“ segir Oddur. 

Handleggur kom í troll

Það er ekki þannig að kennslanefnd Ríkislögreglustjóra sé með í geymslu fjölda beina sem enginn veit hverjum tilheyrðu. Það eru aðeins bein úr einum manni til viðbótar við höfuðkúpubeinið sem nú er vitað að tilheyrði Jóni. „Það er upphandleggsbein sem kemur í veiðarfæri báts í maí 2017 ef ég man rétt, það er búið að aldursgreina það bein og niðurstaðan er sú að það er í nútíma, ef svo má segja. Þetta er ekki einhverra hundraða ára gamalt. Það er búið að finna DNA-snið þessa beins en það hefur ekki tekist að finna samsvörun í gagnagrunninum með DNA-sýnum ættingja þeirra sem hafa horfi á síðustu árum.“

Beinið kom í veiðarfæri út við Selvogsgrunn. Lögregla hefur skráð það á vef Interpol þar sem það fannst nærri alþjóðlegri siglingaleið.

Ættingjar fólks sem er á skrá lögreglunnar yfir óupplýst mannshvörf geta haft samband við Runólf í gegnum netfangið [email protected] til að nálgast frekari upplýsingar um sýnasöfnun lögreglunnar.