Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það eru allir Íslendingar velkomnir heim“

23.03.2020 - 22:13
Mynd: RÚV / RÚV
Flugferðum og áfangastöðum Icelandair fer snarfækkandi. Enn eru þúsundir Íslendinga staddir erlendis og hluti þeirra vill komast heim. Utanríkisráðherra hvetur þá sem huga á heimferð að gera það sem fyrst.

Icelandair heldur nú uppi aðeins 14% af starfseminni. Vel á þriðja hundrað starfsmanna var sagt upp í dag og starfshlutföll og laun annarra voru skert og minnkuð. Forstjórinn segir eftirspurnina snarminnka dag frá degi og allt bendi til að sú þróun muni halda áfram. Ferðum og áfangastöðum muni fækka á næstunni. Enn er fjöldi Íslendinga erlendis sem reynir að komast heim. 

Nú eru um 4500 manns skráðir í gagnagrunn borgaraþjónustunnar, tæplega 1000 með áætlaða heimför fyrir mánaðamót, um 1000 með áætlaða heimför næstu tvo mánuði. Um 2500 eru skráðir með óvissan heimferðardag, sem bendir til þess að þau dvelji langdvölum erlendis.

„Það eru allir Íslendingar velkomnir heim. Við ráðleggjum þeim sem huga á brottför heim að gera það sem fyrst. Af þeirri einföldu ástæðu að flugum er alltaf að fækka. Það eru færri flugfarþegar að ferðast og þar af leiðandi minnkar framboðið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Stjórnvöld hafa hvatt Íslendinga sem eru staddir erlendis að skoða sínar heilbrigðistryggingar og réttindi.

„Við þekkjum réttindi okkar á Evrópska efnahagssvæðinu. Þau eru til staðar og  vonandi er fólk alla jafna með góðar ferðatryggingar.“

En eru hugmyndir manna um samstöðu þjóða og ríkjabandalög að breytast? Er þessi samstaða til staðar þegar raunverulega á reynir?

„Svo að maður taki það jákvæða að við þessar aðstæður þá erum við að vinna mjög náið saman með Norðurlöndunum og það er samstaða um að sýna að það virkar ekki bara þegar vel gengur heldur líka þegar bjátar á. En hins vegar held ég að það sé alveg ljóst að menn munu fara yfir ýmislegt alþjóðasamstarf og fara yfir það hvað hefur virkað á tímum sem þessum,“ segir Guðlaugur Þór.