Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það er ofboðslegur kraftur í fólkinu þarna“

13.11.2019 - 14:08
Mynd:  / 
Forseti bæjarstjórnar Akureyrar segir mikinn hug í íbúum Grímseyjar þrátt fyrir erfiða stöðu. Hún hefur undanfarnar vikur átt fundi með öllum fjölskyldum Grímseyjar um stöðu byggðarinnar.

Íbúar í Grímsey hafa, þrátt fyrir mikinn hug talsverðar áhyggjur af stöðunni eftir að allt hlutafé sjávarútvegsfyrirtækisins Sigurbjarnar ehf. var selt. Með sölunni fer nær helmingur þeirra aflaheimilda, sem útgerðarfyrirtæki í Grímsey ráða yfir, frá eyjunni. 

„Kraftur í fólkinu“

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Halla Björk, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi hafa setið fundi með bæjarbúum. Reiknað er með að þeir fundir klárist í þessari viku. Að því loknu verði hugmyndir þeirra teknar saman og greindar.

Halla Björk segir að þrátt fyrir erfiða stöðu sé mikill hugur í fólki. „Það er ofboðslegur kraftur í fólkinu þarna enda býrðu ekki á hjara veraldar nema þú sért þokkalega sjálfbjarga og duglegur. Það örlar líka á einhverju vonleysi, hvernig náum við snúa þessari þróun við, hvernig lokkum við fleira fólk til eyjarinnar til búsetu. Þau eru raunsæ en auðvitað kraftur í þeim og hugur,“ segir Halla Björk.

Örfái íbúar í Grímsey í vetur 

Grímsey hefur tekið þátt í byggðarþróunarverkefninu Brothættum byggðum frá árinu 2015. Miklar breytingar hafa orðið á þeim tíma. Fjarskiptasamband og samgöngur hafa verið bættar og ferðaþjónustufyrirtæki hafa aukið þjónustu sína. Íbúaþróun hefur hins vegar ekki verið snúið við og var skólahald lagt niður í vor. Aðeins ellefu manns búa í Grímsey í vetur.

Heilsársbyggð gæti lagst af

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi hafa ásamt Höllu setið fundi með bæjarbúum. Reiknað er með að þeir fundir klárist í þessari viku. Að því loknu verður boðað til fundar með öllum íbúum þar sem farið verður yfir möguleikana. Einn þeirra er að hugsanlega geti heilsársbyggð lagst af. „Við höfum auðvitað töluverðar áhyggjur af næstu mánuðum og árum með þessari þróun sem hefur verið síðastliðin ár,“ segir Halla Björk en viðtalið í heild sinni má heyra hér að neðan.

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV