„Ég er alveg búin að fá nýja sýn á BDSM,“ segir Rán Tryggvadóttir móðir Klemensar og brosir. Ekki virðast þó allir í fjölskyldum þeirra, sem keppa til úrslita í Eurovision á morgun í leðurgöllum alsett göddum, vera jafn hrifin af klæðaburði þeirra. Rán segir ömmu Klemensar og Matthíasar hafa brugðið mikið í brún þegar hún sá mynd af Klemensi fáklæddum í Fréttablaðinu og ekki ætlað að þekkja hann. „Hún spurði forviða Er þetta hann Klemens? og ég svaraði ákveðin Já.“
Foreldrafélagið hefur staðið þétt við bakið á sínu fólki úti segir það að fá að taka þátt í ævintýrinu bæði skemmtilegt og stressandi. Litla systir Matthíasar, Jórunn Elenóra, er foreldrafélaginu til halds og trausts en hún segir sitt hlutverk vera andlegan stuðning við taugatrekkta foreldra. „Það er mjög skrýtin tilfinning að sjá bróður minn og frænda á sviði með leðurólar að öskra,“ segir Jórunn.
Aðspurður hvernig þetta horfi allt saman við sér svarar Haraldur Flosi Tryggvason faðir Matthíasar: „Maður þarf eiginlega að snúa þessu við og spyrja hvernig það sé að vera í BDSM-rokkbandi og foreldrarnir eru með. Þú þarft að vera mjög kúl til að þola það.“ Hann segist þó aldrei hafa verið beðinn að halda sig fjarri. „Þau eru risar þessir krakkar og það haggar þeim ekkert.“
Halldóra Hermannsdóttir móðir Einars trommugimps tekur í sama streng en segir þó að það komi sér mest á óvart að sjá soninn þegja og stara svona lengi fram fyrir sig í viðtölum. „Þetta er alveg rosalega langt frá hans karakter að þegja svona,“ svarar hún.