Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Það er mjög ólíkt Einari að þegja svona“

Mynd: Gísli Berg / RÚV

„Það er mjög ólíkt Einari að þegja svona“

18.05.2019 - 10:00

Höfundar

Flestir í foreldrafélagi Hatara, sem nú eru í Ísrael að styðja við bakið á sínu fólki, eru sammála um að hafa aldrei órað fyrir að þau ættu eftir að fara í hópferð til að horfa á krakkana sína keppa í úrslitum Eurovision. Þau fagna því að lífið komi á óvart og segjast komin með nýja sýn á keppnina, tónlistina, leðrið og gaddana.

„Ég er alveg búin að fá nýja sýn á BDSM,“ segir Rán Tryggvadóttir móðir Klemensar og brosir. Ekki virðast þó allir í fjölskyldum þeirra, sem keppa til úrslita í Eurovision á morgun í leðurgöllum alsett göddum, vera jafn hrifin af klæðaburði þeirra. Rán segir ömmu Klemensar og Matthíasar hafa brugðið mikið í brún þegar hún sá mynd af Klemensi fáklæddum í Fréttablaðinu og ekki ætlað að þekkja hann. „Hún spurði forviða Er þetta hann Klemens? og ég svaraði ákveðin .“

Foreldrafélagið hefur staðið þétt við bakið á sínu fólki úti segir það að fá að taka þátt í ævintýrinu bæði skemmtilegt og stressandi. Litla systir Matthíasar, Jórunn Elenóra, er foreldrafélaginu til halds og trausts en hún segir sitt hlutverk vera andlegan stuðning við taugatrekkta foreldra. „Það er mjög skrýtin tilfinning að sjá bróður minn og frænda á sviði með leðurólar að öskra,“ segir Jórunn.

Aðspurður hvernig þetta horfi allt saman við sér svarar Haraldur Flosi Tryggvason faðir Matthíasar: „Maður þarf eiginlega að snúa þessu við og spyrja hvernig það sé að vera í BDSM-rokkbandi og foreldrarnir eru með. Þú þarft að vera mjög kúl til að þola það.“ Hann segist þó aldrei hafa verið beðinn að halda sig fjarri. „Þau eru risar þessir krakkar og það haggar þeim ekkert.“

Halldóra Hermannsdóttir móðir Einars trommugimps tekur í sama streng en segir þó að það komi sér mest á óvart að sjá soninn þegja og stara svona lengi fram fyrir sig í viðtölum. „Þetta er alveg rosalega langt frá hans karakter að þegja svona,“ svarar hún.

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Foreldrafélagið er afar samheldið

Stressaðastur þeirra í foreldrafélaginu er án nokkurs vafa, að mati félagsmanna, Sigurður Gunnarsson faðir Sólbjartar. „Þegar undankeppnin var á Íslandi var Siggi alveg að fara á taugum. Þegar atkvæðagreiðslan hófst þá þoldi hann ekki að horfa svo hann rauk upp úr sófanum og hvað haldiði að hann hafi gert? Hann æddi út í bílskúr að saga!“ rifjar Stefán upp og Sigurður reynir ekki að þræta fyrir ásakanirnar: „Mér fannst mjög gott þarna að geta bara brugðið mér í bílskúrinn.“

Stefán segir að þeim, foreldrum Einars, hafi brugðið fyrst þegar strákarnir byrjuðu fyrst að æfa lög Hatara í bílskúrnum. „Við vissum fyrst ekkert hvað þeir voru að bjástra drengirnir. Þeir voru búnir að taka upp einhverja raftónlist en við heyrðum hana ekki en við heyrðum bara öskrin. Þá hálfvorkenndum við nágrönnunum.“

Foreldrafélag Hatara hefur sterka tengingu við utanríkisþjónustuna en Stefán Haukur Jóhannesson faðir Einars er sendiherra Íslands í Lundúnum og Nikulás Hannigan faðir Klemensar er skrifstofustjóri á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Það er því varla hjá því komist að velta fyrir sér hvort Hatarar eru útsendarar utanríkisþjónustunnar. Þegar Stefán er inntur eftir svörum við því stendur ekki á þeim. Hann svarar með ískaldri störu að hætti trommugimpa.

Rætt var við foreldra liðsmanna Hatara í þættinum Telegram í Tel Aviv en innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Við tjáum okkur ekki um lokaútspilið“

Tónlist

Fólkið á götunni bjartsýnt fyrir hönd Hatara

Popptónlist

Hatari sautjándi á svið

Pistlar

Hatrið innlimað, úrbeinað og markaðssett?