Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það er í rauninni verið að afbóka allt“

13.03.2020 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Afbókanir hrannast upp hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Norðurlands segir fyrirtæki mörg hver ekki í stakk búin undir annað áfall eftir erfiðan vetur. Lykilatriði sé að sumarið gangi vel. Búið er að afbóka flestalla viðburði á Hótel Kea á Akureyri í mars.

COVID-19 faraldurinn hefur mikil áhrif á ferðamennsku á landinu öllu. „Menn eru áhyggjufullir en mjög yfirvegaðir og bjartsýnir á að við stöndum þetta af okkur,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Hljóðið í fólki breytist þó frá degi til dags þar sem óvissan sé mikil.

Skellur eftir erfiðan vetur

Hún segir þennan tíma almennt erfiðan fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi þar sem árstíðarsveiflan sé mikil. Þá séu margir verr staddir en venjulega þar sem veturinn hafi verið erfiður eftir fall WOW air. Á Norðurlandi séu þó almennt fáir erlendir ferðamenn í mars og apríl. Þangað sæki Íslendingar hins vegar mikið í vetrarferðamennsku, árshátíðir og ráðstefnur. 

Verið að afbóka allt

Mikið er um afbókanir vegna faraldursins og nú vegna samkomubanns sé ljóst að næstu fjórar vikur séu alveg úti líka. Um 80% ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu séu mjög lítil og mörg hver ekki vel í stakk búin til að takast á við annað áfall; „Það er í rauninni verið að afbóka allt núna sem kemur mjög harkalega niður á gisti- og veitingastöðum til viðbótar við allt annað“. Það sé því mikilvægt að aðgerðir stjórnvalda og sveitarfélaga til að hjálpa þessum fyrirtækjum gangi hratt fyrir sig og taki gildi strax. 

Lifa af og vera tilbúin fyrir sumarið

Arnheiður segir einhver fyrirtæki nú þegar vera búin að loka. Önnur rýni í reksturinn og haldi að sér höndum með ráðningar. Verkefni fyrirtækjanna núna sé tvíþætt, annars vegar þurfi að passa að fyrirtækið nái að lifa þennan tíma af, sem fari eftir lausafjárstöðu hvers og eins. Hins vegar að vera tilbúin til að fara í gang aftur eftir sumarið. Það gæti bjargað miklu ef faraldurinn gangi yfir fyrir sumarið. „Það er lykilatriði að sumarið verði í lagi, ef ekki er ég ansi hrædd um að staðan verði slæm næsta haust.“  

Búið að afbóka allt í mars

Aron Pálsson, hótelstjóri hótel Kea á Akureyri, segir búið að afbóka flestalla þá viðburði sem áttu að vera á hótelinu í mars. Þau hafi fundið áhrif faraldursins fyrr á landsbyggðinni og þá í stærri afbókunum því þangað komi Íslendingar á ráðstefnur og árshátíðir. Um leið og einn viðburður hafi verið afbókaður hafi restin komið í hrönnum. Hann segir ákvörðun Trumps um að loka á flug frá Evrópu hafa meiri áhrif í Reykjavík, enda séu erlendu ferðamennirnir meira á því svæði á þessum árstíma. Það hafi þó vissulega einhver áhrif fyrir norðan líka.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV