Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Það er ekkert kósí og jólalegt við þetta óveður“

13.12.2019 - 10:32
Mynd með færslu
 Mynd: Björgunarfélagið Blanda - Aðsend mynd
Óveðrið síðustu daga hefur haft víðtæk áhrif á Norðurlandi vestra og tjón þar er mikið. Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, segir fólk ekki gera sér grein fyrir áhrifum veðurofsans á líf fólks á svæðinu. Kósí myndir á samfélagsmiðlum gefi skakka mynd. Hún tók því saman Facebook stöðufærslur vina á svæðinu þar sem aðstæðum í rafmagnsleysi og veðurofsa er lýst. 

Þar segir einn segir frá tveggja sólarhringa rafmagnsleysi. Úlpuveður sé inni og hratt hafi gengið á kerta og rafhlöðubirgðir heimilisins. Annar hætti lífi sínu til að koma á rafmagni í bandvitlausu veðri. „Snjóbíllinn sem hann var á valt á leiðinni og þurfti hann að ganga á næsta bæ í aftakaveðri til að komast í skjól, svo hélt hann áfram á endastöð sem tók í allt 9 klukkustundir (tekur venjulega 30 mín). Einnig var símasambandslaust svo ekki var hægt að ná í hann og vissum við fjölskyldan ekkert hvar hann var niður kominn í allt of langan tíma! Hann stóð svo rafmagnsvaktina í bandvitlausu veðri í einn og hálfan sólarhring.“

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á norðurlandi vestra.
 Mynd: Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Unnur Valborg Hilmarsdóttir.

Verst að horfa upp á dýrin

Unnur segir verst að horfa upp á dýrin sem finni einnig fyrir veðrinu. Bændur  lýsa því meðal annars hvernig þeir þurftu að gefa og sæða sauðfé í svarta myrkri og hella hátt í 1000 lítrum af mjólk. Kýr fá einungis hey og vatn en ekkert kjarnafóður og ekkert sé mjólkað.  Júgurbólga hrjáir sumar kýr þar sem ekki er varaafl til að knýja róbóta í fjósum. Þá hefur þurft að grafa hross úr snjó og moka þurfti upp eitt hross sem rétt sást glitta í snoppuna á. Bóndinn sem bjargaði hrossinu lýsir því að stutt sé í tárin. „Freyja er núna inni í hesthúsi og vona ég svo innilega að hún nái sér. Maður vonar að enginn þurfi að lenda í þessu því þó maður sé með breitt bak þá er stutt í tárin.“

Sinntu sjúklingum með höfuðljós og batterískerti

Heilbrigðisstarfsfólk segir að áskorun hafi verið að vinna við þessar aðstæður og sinna sjúklingum með höfuðljós og nokkur batterískerti. Sjúkrahúsið á Hvammstanga hafi verið lengi rafmagnslaust en það sé án vararafstöðvar. Svona lýsir einn aðstæðum „Þurfti í óveðrinu að finna til lyf handa sjúklingum í svartamyrkri með vasaljós á enninu. Bærinn rafmagnslaus og ekkert varaafl.“

Þá lýsa íbúar sólarhringa rafmagnsleysi, hitavants- og símasambandsleysi og miklum kulda.  Fólk þurfti að brjótast í gegnum blindbylinn til að finna símasamband og gera fjölskyldu viðvart. „Fékk loksins langþráð símtal að heiman þegar pabbi og [bróðir] náðu að brjótast út á þjóðveg og ná daufu símasambandi loksins þegar hríðinni slotaði. Allt í lagi með bæði fólk og eignir en enn þá rafmagnslaust og kalt orðið í húsum. Ef ekki kemst rafmagn á á morgun gætu leiðslur farið að gefa eftir í kuldanum fram undan.“

Kallar eftir viðbrögðum stjórnvalda

Unnur segir að ástandið hafi verið grafalvarlegt. Innviðir víða á landinu séu augljóslega ekki í lagi og stjórnvöld verði að bregðast við strax. „Það er því ekkert kósí og jólalegt við þetta óveður og eftirköst þess. Það er ekki bara kalt á þeim bæjum sem eru búnir að vera rafmagnslausir lengi heldur eru bændur að verða fyrir eignatjóni og verulegu tekjutapi.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV