Í fyrravetur byrjaði Jóhann að taka þátt í skúrstarfseminni. „Það var ekki fyrr en við fengum þetta húsnæði sem við gátum farið að byggja upp og koma saman, hér er mjög skemmtilegur hópur. Það má segja að við tölum svona tungum tveim þegar við komum hér yfir þröskuldinn. Það eru smápillur og skot og allt í góðu, húmorinn og eins og þetta var og er hugsað, að ná körlum upp úr sófunum. Ég veit ekkert með mína félaga hérna, hvort menn hafa verið að einangrast, ég var kannski ekki sú týpa en þó veit maður það aldrei, maður getur þess vegna farið að verða eitthvað leiður heima og setið á rassgatinu. Mér skilst eftir könnunum að karlmenn eigi frekar á hættu að einangrast.“
Karlarnir hittast í skúrnum tvisvar í viku en eru svo með lykla og geta komið þegar þeir vilja utan hefðbundinna fundartíma. „Það er þá ætlast til þess að við förum ekki í öflugustu vélarnar, þegar við erum einir.“
„Vinnan er skemmtileg ef vinnufélagarnir eru það“
Jóhann er giftur, á þrjú börn og fjögur barnabörn, ekki nógu mörg að eigin sögn. „Þetta er orðið svo stórt þannig að maður þyrfti að fá viðbót. Það fermist á næsta ári það yngsta þannig að maður er svolítið vaxinn upp úr afahlutverkinu.“ Hann segir Karla í skúrum fylla upp í ákveðið tómarúm. „Maður er svona við það að fara að bíða eftir þriðjudeginum og fimmtudeginum, þetta eru þrælléttir karlar og við tökum okkur ekki of alvarlega.“
Jóhann segir að stemmningin í skúrnum sé ekki ósvipuð stemmningunni á gamla vinnustaðnum, nema lengri kaffipásur, stundum sitji þeir í kaffi klukkutímum saman. „Það má kannski segja að skemmtilegir vinnufélagar séu meira virði en vinnan. Ef vinnan er skemmtileg en vinnufélagarnir ekki þá getur vinnan aldrei orðið skemmtileg. Leiðinleg vinna getur hins vegar orðið skemmtileg með skemmtilegum vinnufélögum.“
Haustrigningar og myrkur ofan á starfslok
Jóhann fór ekki á starfslokanámskeið og skipulagði starfslokin ekki sérstaklega en hann fékk ráð hjá körlum sem höfðu hætt á undan honum. „Þeir voru flestir sammála um að þeir sem hefðu hætt inn í haustið og voru ekki sáttir með veturinn og síðan menn sem hættu að vori, það hafi komið betur út. Þannig að ef menn eiga kost á því, ég held þetta sé alveg rétt, ef menn sakna vinnufélaganna og vinnunnar og fá svo kannski haustrigningarnar og myrkrið, að það sé betra að hafa hitt með sér.“