Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það er betra að hætta inn í sumarið“

Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir / Arnhildur Hálfdánardóttir
„Fyrsta árið var svolítið skrítið, það vantaði svolítið inn í tilveruna því þessi tilvera, vinnutilveran, sérstaklega þegar maður er búinn að vinna svona lengi á sama stað, er partur og jafnvel stór partur af hverjum manni, vinnustaðurinn, vinnufélagarnir.“ Svona lýsir Jóhann Salomon Gunnarsson þeim tímamótum að hætta að vinna.

Þakklátur fyrir skúrinn

Fyrsta árið var skrítið en  Jóhann segist þetta hafa vanist með tímanum. Í dag er hann mjög sáttur og hann þakkar það ekki síst þátttöku í Körlum í skúrum, verkefni á vegum Rauða krossins. Skúrinn er við Helluhraun í Hafnarfirði og þangað geta karlar á öllum aldri komið og sinnt ýmsum verkefnum; smíðað, rennt, skorið út, málað eða framkallað ljósmyndir, svo dæmi séu nefnd. Flestir sem taka þátt í verkefninu eru komnir á eftirlaun og á kaffistofunni svífur húmorinn yfir vötnum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Félagar í skúrnum.

Starfslokum flýtt 

Jóhann Salomon er 73 ára og starfaði sem vélvirki í álverinu í Straumsvík til ársins 2014, hætti þar á 68. aldursári eftir 42 ára starf. „Í Straumsvík er kerfi þar sem er boðið upp á starfslok, þriggja ára starfslok þar sem menn fá hálf laun. Langflestir hætta 67 ára en menn geta unnið til sjötugs.“ 

Mynd með færslu
OECD telur framleiðni vera í lagi í áliðnaði. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Álverið í Straumsvík.

Jóhann hætti á 68. aldursári, hafði fengið þær ráðleggingar frá eldri félögum að það væri betra að hætta að vori en um haust. „Ég á afmæli í september og menn höfðu sagt mér að það gæti verið erfitt að hætta inn í haustið og veturinn ef menn væru ekki sáttir við að hætta, það væri betra að hætta inn í sumarið.“

En var hann ekki sáttur við að hætta? „Jú, það var þannig á þessum tíma að það var verið að fækka mönnum, það átti að fækka mönnum um tíu prósent held ég. Þetta var svona gagnkvæmur samningur þannig að við getum hætt og þeir getið látið okkur í flýtt starfslok þannig að í staðinn fyrir að segja yngri mönnunum sem voru komnir með styttri ráðningartíma upp var klippt aftan af. Því menn sem eru komnir á þennan tíma geta sagt þessu upp hverju sem er. Þarna um haustið lét ég verkstjórann vita að ég væri svona að ígrunda þetta, var ekki búinn að taka ákvörðun en svo þegar þessi staða kom upp í fyrirtækinu var ekkert snúið aftur og það var kannski bæði já og nei í þeirri stöðu, án þess það færi neitt á sálina.“

Meira með vinnufélögunum en makanum

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir

Maður mætir kannski ekki fyrirvaralaust í kaffi í álverið, eftir starfslok, missir kannski skyndilega tengslin við vinnufélagana?  Jóhann bendir á að það sé alltaf áramótakaffi, þá komi gamlir félagar og fái sér kaffi með strákunum á verkstæðinu , ÍSAL hafi svo boðið upp á eldri borgara ferðir og mánaðarlega yfir vetrarmánuðina hittist ÍSAL-menn og fái sér kaffi í Gullsmára. Þetta séu þó ákveðinn viðbrigði, félagslega að hætta. „Maður er náttúrulega að mörgu leyti meira með vinnufélögunum en með makanum, þarna er maður með sama manninum í átta klukkutíma en þegar maður er kominn heim bíða búðarferðir og sjónvarpið og dyttinn og dattinn þannig að oft á tíðum eru menn meira með vinnufélögunum heldur en maka og börnum.“

Sumir sögðust hafa of mikið að gera

Lífið eftir starfslok kom Jóhanni ekki á óvart, því hann hafði ráðfært sig við eldri menn. „Það voru menn sem maður hitti, sem eru eldri, og margir þeirra sögðust hafa svo mikið að gera að þeir kæmust ekki yfir það. Það eru barnabörnin og fjölskyldan og ég tala nú ekki um ef menn detta inn í svona félagsskap, þá er nóg að gera ef menn vilja. Svo stundaði ég svolítið líkamsrækt, sundið og göngur en fyrsta árið var svolítið skrítið, það vantaði svolítið inn í tilveruna því þessi tilvera, vinnutilveran, sérstaklega þegar maður er búinn að vinna svona lengi á sama stað, þá er þetta partur og jafnvel stór partur af hverjum manni, vinnustaðurinn, vinnufélagarnir.“

En hvenær hætti þetta að vera skrítið? Hvernig fann hann sína fjöl? „Þetta var í raun aldrei neitt vandamál, mér þótti gaman að vinna og stimpilklukkan fór ekkert í taugarnar á mér en eftir árið var ég í raun orðinn mjög sáttur og alveg steinhættur að hugsa með neinum söknuði til þess, sú tilfinning að maður þyrfti að vera í þessu var farin. Ætli það sé ekki líka, að þegar maður eldist, bæði líkamlega og andlega þá sættir maður sig við þetta.“

„Tölum tungum tveim þegar við komum hér yfir þröskuldinn“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Húmorinn svífur yfir vötnum.

Í fyrravetur byrjaði Jóhann að taka þátt í skúrstarfseminni. „Það var ekki fyrr en við fengum þetta húsnæði sem við gátum farið að byggja upp og koma saman, hér er mjög skemmtilegur hópur. Það má segja að við tölum svona tungum tveim þegar við komum hér yfir þröskuldinn. Það eru smápillur og skot og allt í góðu, húmorinn og eins og þetta var og er hugsað, að ná körlum upp úr sófunum. Ég veit ekkert með mína félaga hérna, hvort menn hafa verið að einangrast, ég var kannski ekki sú týpa en þó veit maður það aldrei, maður getur þess vegna farið að verða eitthvað leiður heima og setið á rassgatinu. Mér skilst eftir könnunum að karlmenn eigi frekar á hættu að einangrast.“

Karlarnir hittast í skúrnum tvisvar í viku en eru svo með lykla og geta komið þegar þeir vilja utan hefðbundinna fundartíma. „Það er þá ætlast til þess að við förum ekki í öflugustu vélarnar, þegar við erum einir.“

„Vinnan er skemmtileg ef vinnufélagarnir eru það“

Jóhann er giftur, á þrjú börn og fjögur barnabörn, ekki nógu mörg að eigin sögn. „Þetta er orðið svo stórt þannig að maður þyrfti að fá viðbót. Það fermist á næsta ári það yngsta þannig að maður er svolítið vaxinn upp úr afahlutverkinu.“ Hann segir Karla í skúrum fylla upp í ákveðið tómarúm. „Maður er svona við það að fara að bíða eftir þriðjudeginum og fimmtudeginum, þetta eru þrælléttir karlar og við tökum okkur ekki of alvarlega.“

Jóhann segir að stemmningin í skúrnum sé ekki ósvipuð stemmningunni á gamla vinnustaðnum, nema lengri kaffipásur, stundum sitji þeir í kaffi klukkutímum saman. „Það má kannski segja að skemmtilegir vinnufélagar séu meira virði en vinnan. Ef vinnan er skemmtileg en vinnufélagarnir ekki þá getur vinnan aldrei orðið skemmtileg. Leiðinleg vinna getur hins vegar orðið skemmtileg með skemmtilegum vinnufélögum.“

Haustrigningar og myrkur ofan á starfslok

Jóhann fór ekki á starfslokanámskeið og skipulagði starfslokin ekki sérstaklega en hann fékk ráð hjá körlum sem höfðu hætt á undan honum. „Þeir voru flestir sammála um að þeir sem hefðu hætt inn í haustið og voru ekki sáttir með veturinn og síðan menn sem hættu að vori, það hafi komið betur út. Þannig að ef menn eiga kost á því, ég held þetta sé alveg rétt, ef menn sakna vinnufélaganna og vinnunnar og fá svo kannski haustrigningarnar og myrkrið, að það sé betra að hafa hitt með sér.“