„Það er bara allt svart“

Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Þór Björnsson - RÚV
Rannsókn á eldsvoða í fjölbýlishúsi í Vesturbergi á föstudaginn er enn í gangi, en vinnu lögreglu á vettvangi er lokið. Íbúi í húsinu segir ástandið slæmt.

„Það er bara allt svart á stigaganginum. Íbúðin mín er á annarri hæð og þar er ágætt ástand. Ég held að neðsta íbúðin hafi lent verst í þessu,“ segir Hjörtur Sigurjónsson sem býr í fjölbýlishúsinu.

Eldur kviknaði í geymslurými á neðstu hæð hússins og fylltist stigagangurinn af reyk. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en tjónið er verulegt. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er rannsókn í fullum gangi en eldsupptök eru ókunn. Ekki er útilokað að um íkvekju hafi verið að ræða.

Lögregla hefur afhent vettvanginn og hafa íbúar því fengið tækifæri til að meta tjónið. Ljóst er að eldsvoðinn setur strik í jólahaldið. „Ég get ekki eytt jólunum hér. Það þarf að þrífa allt fyrst og hér er ekkert rafmagn og ekki neitt,“ segir Hjörtur sem er búinn að finna sér annan samastað yfir jólahátíðirnar.

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi