Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Það á ekki að vera hægt að skapa svona list

Mynd: RÚV / RÚV

Það á ekki að vera hægt að skapa svona list

28.11.2019 - 19:56

Höfundar

Bráðnun jökla 1999/2019, nefnist myndlistarsýning sem Ólafur Elíasson opnaði í Listasafni Reykjavíkur í dag. Á sýningunni sýnir hann myndir sem hann segir að sýni glögglega afleiðingar mannlegra gjörða á umhverfið.

Árið 1999 tók Ólafur myndir af nokkrum tugum jökla á Íslandi. Tuttugu árum síðar sneri hann aftur til að mynda jöklana á nýjan leik. Á sýningunni sem opnuð var í Listasafni Reykjavíkur í dag sameinar Ólafur ljósmyndaraðirnar. Ólafur segir að honum hafi brugðið í brún þegar hann sá muninn á jöklunum nú og fyrir 20 árum. Allir jöklarnir hafi skroppið verulega saman og suma hafi hann jafnvel átt í erfiðleikum með að finna aftur. Ólafur lítur svo á að hver einasti jökull sem glatist endurspegli aðgerðaleysi mannkyns. Hver jökull sem bjargist verði hins vegar vitnisburður um aðgerðir í baráttunni við hamfarahlýnun. 

Fyrir opnun sýningarinnar í dag ræddi Ólafur við Andra Snæ Magnason rithöfund í pallborðsumræðum.

„Maður á ekki að geta skapað list eins og þá sem Ólafur var að gera. Það á víst ekki að vera hægt að vera listamaður og skapa eitthvað eins og þetta. Því þarna skiptir náttúran úr jarðsögulegum hraða yfir á mennskan hraða,“ sagði Andri Snær meðal annars.

„Þú ert heppinn að leggjast ekki í of mikla skáldlega rómantík,“ sagði Ólafur við Andra. „Ekki að það sé eitthvað að ljóðlist, en þú virðist einnig kunnugur mælingargögnum. Og jafnvægið milli gagna og svo tilfinninga er sjaldgæft og því má alveg treysta af því að við vitum að aðeins tilfinningar, þær geta verið mjög góðar, en þær geta líka, ef mæligögnin eru fjarlægð getur maður setið uppi með Trump, sem er andvísindi; svo að það er bæði gott og hættulegt,“ sagði Ólafur.

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Hér má sjá ítarlegt viðtal við Ólaf Elíasson í Menningunni.

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Ný rannsókn: Vatnajökull gæti nánast horfið fyrir 2300

Umhverfismál

Mesta rýrnun íslenskra jökla í áratug

Umhverfismál

Ólafur Elíasson velgjörðarsendiherra SÞ

Myndlist

Ólafur Elíasson einn af 10 áhrifamestu