Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur vinnubrögðin forkastanleg ef rétt reynist

13.11.2019 - 21:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir um Samherjaskjölin að ef rétt reynist þá sé málið mjög alvarlegt og mikið áfall. „Enda þarna um að ræða, ef rétt reynist, vinnubrögð sem eru algjörlega forkastanleg.“ Hann og Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar tóku í Kastljósi í kvöld undir með fleirum sem talað hafa um mikilvægi þess að málið verði rannsakað í kjölinn.

Hér má horfa á Kastljós í heild. 

Guðlaugur segir mikilvægt að það komi fram að málið á engan hátt tengjast verkefnum íslenskra stjórnvalda í Namibíu sem hafi lokið árið 2010. Ekkert samstarf hafi verið milli Samherja og utanríkisráðuneytisins. Íslensk stjórnvöld leggi mikla áherslu á þróunarsamvinnu og mikilvægt sé að halda því áfram.

Guðlaugur segist alltaf hafa áhyggjur af orðspori Íslands þegar svona mál komi upp. „Það er líka mjög mikilvægt að við gefum þau skýru skilaboð að það sé verið að taka þessu af fullri alvöru og það er verið að rannsaka þetta. Og það er gott að við erum með aðilar að alþjóða samningum sem aðstoða þar til bær yfirvöld til að gera nákvæmlega það.“