Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur ummæli Bandaríkjaforseta óboðleg

17.07.2019 - 15:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir ummæli Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, óboðleg og tekur undir álit fulltrúadeildar bandaríska þingsins. Þá segir hún í samtali við fréttastofu að ummælin dæmi sig sjálf.

Forsætisráðherrar fjölmargra ríkja hafa þegar gagnrýnt forsetann fyrir ummælin. Til að mynda Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings fordæmdi í nótt Twitter-færslu Bandaríkjaforseta þar sem hann sagði fjórum þingkonum af erlendum uppruna að fara aftur til síns heima. Þingsályktunin var samþykkt með 240 atkvæðum gegn 187.

Allir þingmenn Demókrata greiddu atkvæði með ályktuninni og fjórir þingmenn Repúblikana. Í ályktuninni segir að ummælin séu rasísk og hafi réttlætt ótta og hatur gegn aðfluttum Bandaríkjamönnum og lituðu fólki. 

Ályktunin hefur ekkert lagalegt gildi en hins vegar mikil táknræn gildi enda mjög sjaldgæft að þingið álykti gegn forsetanum. Það hefur einungis gerst fjórum sinnum, síðast árið 1912 þegar þingið fordæmdi William Howard Taft en hann þótti beita sér af ólöglegum hætti í atkvæðagreiðslu á þinginu.